Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, sem er verkefni vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, er að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar. Hæfnisetrið greinir þarfir fyrirtækja, mótar leiðir, eykur samvinnu og samræmingu við fræðslu og kemur henni á framfæri til fræðsluaðila og fyrirtækja innan ferðaþjónustu. Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og í víðtækri samvinnu og sátt við hagaðila í samfélaginu. Mikilvægt er að fræðsluaðilar standi fyrir árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar. Mat á árangri fræðslu á rekstur fyrirtækja er því einn af hornsteinum nálgunar setursins á fræðslu og hæfniaukningu í fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Leiðarljós hæfniaukningar í ferðaþjónustu er notkun og smíði verkfæra sem nýtast á hagnýtan hátt fyrir ferðaþjónustuna og á forsendum hennar. Aukin arðsemi og framleiðni eru lykilatriði, að öðrum kosti munu hvorki starfsfólk né stjórnendur nýta sér þau fræðsluúrræði sem eru í boði. Markmið allra í ferðaþjónustu eru ánægðir gestir.
Í sumar hefur verið unnið að skipulagningu á tilraunaverkefni sem verður farið af stað með í september. Tilraunaverkefnið felst í heildrænni nálgun á fræðslu með blöndu af utanaðkomandi fræðslu, innri fræðslu, rafrænni fræðslu og mat á árangri á rekstur. Fræðsla fer fram í fyrirtækjunum eða utan þeirra kjósi þau svo. Unnið er í því að festa niður þær símenntunarmiðstöðvar sem verða með í fyrsta fasa og verður því lokið fyrir 1. september. Mikill áhugi er hjá símenntunarmiðstöðvum og markaðsstofum sem rætt hefur verið við að taka þátt í fyrsta skrefi verkefnisins. Gerð hafa verið drög að þjálfun starfsmanna fræðsluaðila sem Hæfnisetrið sér um. Að loknu þessu tilraunaverkefni verður reynsla metin og fleiri fræðsluaðilum boðið í samstarf á þessu sviði.
Hæfnisetrið mun leggja til yfirfarið fræðsluefni sem unnið hefur verið af sjálfstæðum kennsluráðgjöfum með styrk frá Fræðslusjóði. Enn fremur hafa verið lögð drög að samkomulagi við vefgerðarstofu um notkun smáforrita (app) í snjallsímum í fræðslu en sá aðili hefur mikla reynslu á því sviði.

Hafðu samband