Haustið 2016 byrjaði Eva Karen Þórðardóttir sem starfsmannastjóri hjá Grillhúsinu og fyrirtækjum þess. Hún byrjaði á að rýna í starfsemina og taka viðtöl við starfsfólkið. Þessi viðtöl gáfu henni mjög skýra sýn á hvað mátti betur fara og hvað var verið að gera vel.
Í framhaldinu voru reglur og ferlar skoðaðir vel. Starfsmannahandbók var skrifuð og er ætlunin að innleiða nýtt gæðakerfi sem er hugsað sem eftirfylgni með reglum og námskeiðum sem haldin verða.
Til að greina þörfina fyrir fræðslu og til að fá upplýsingar um hvaða námskeið væru í boði var ákveðið að fá fræðslustjóra að láni frá starfsmenntasjóðunum. Fræðslustjóri að láni hjálpaði þeim að greina þörfina fyrir námskeið og koma skipulagi á þau, einnig að setja eigin fræðslu fyrir Grillhúsið í fastar skorður, þar sem slík námskeið eru haldin reglulega.
Starfsmannaveltan er mikil í þessum bransa og skiptir það gríðalega miklu máli að starfsfólk fái þjálfun við hæfi, segir Eva Karen. Bæði því sem snýr að gæðamálum fyrirtækisins og vellíðan starfsfólksins. Það þarf jafnframt að þjálfa stjórnendur til að fylgja eftir réttu verklagi og eftirfylgnin/ eftirlit verður að vera til staðar.
Eva Karen segir að þau vilji að sjálfsögðu að starfsfólkinu líði vel hjá þeim og þeim líður mun betur þegar gott skipulag sé til staðar, það fær þjálfun við hæfi, veit hvað er ætlast til af þeim í starfi og veit að það er í lagi að gera misstök og læra af þeim. Sé hugað að öllum þessum þáttum þá mun starfsfólkið staldra lengur við hjá okkur, segir Eva Karen að lokum.