Á síðasta ári var farið af stað með klasaverkefni í ferðaþjónustu en verkefnið var fjármagnað af Starfsafli og Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks. Þau fyrirtæki sem tóku þátt í verkefninu voru Frost og funi, Skyrgerðin-Cafe & Bistro, Hótel Örk, Almar bakari og Gistiheimilið Frumskógar, öll í Hveragerði.
Um tilraunaverkefni var að ræða, þar sem greindar voru fræðsluþarfir fyrirtækjanna á grundvelli stefnu hvers fyrirtækis. Afurðin er ein sameiginleg fræðsluáætlun sem mun ná til allra fyrirtækjanna og taka tillit til þarfa hvers fyrirtækis fyrir sig.
Tildrög þess að þetta verkefni fór af stað er að mörg lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa leitað til starfsmenntasjóða um hvernig þeir gætu aðstoðað þau við greiningu á fræðsluþörfum og námskeiðahaldi fyrir sitt starfsfólk. Þar sem í mörgum tilfellum er um að ræða fyrirtæki með kannski 2-10 starfsmenn, þá er snúið hjá svo fámennum fyrirtækjum að koma á reglulegri þjálfun og jafnframt mjög kostnaðarsamt. Því kom hugmyndin um klasasamstarf, þ.e. að nokkur fyrirtæki tækju sig saman og nýttu einn og sama ráðgjafann til að greina fræðsluþarfir. Þau fengju síðan í framhaldinu fræðsluaðila til að skipuleggja og halda námskeiðin sem koma út úr greiningunni. Með þessu eru fyrirtækin í klasanum jafnframt að deila kostnaði vegna námskeiða.
Elfa Dögg Þórðardóttir eigandi Frost og Funa og Skygerðarinnar sagði að samstarf væri meira heldur en samkeppni hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í Hveragerði og því augljós hagur af því að taka þátt í slíku verkefni. Fræðslu er ábótavant og flókið að koma henni á en með þessum hætti það hægt. Þetta er mikilvægt en aukin fræðsla eflir sjálfstraust og vellíðan starfsfólksins okkar sem síðan skilar sér til gestanna, sagði Elfa.