Fyrsti fundur fagráðs og stýrihóps

Fyrsti sameiginlegi fundur fagráðs og stýrihóps í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar var haldin í Húsi atvinnulífsins  þann 6. júní sl.  Tilgangur fundarins var að marka stefnu um hlutverk, framtíðarsýn og gildi Hæfniseturins. Ellefu einstaklingar sóttu fundinn fyrir utan starfsmenn Fræðslumiðstöðvarinnar sem hýsa verkefnið samkvæmt þjónustusamningi við Stjórnstöð ferðamála og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.
Framtíðarsýn Hæfnisetursins er að ferðaþjónustan hafi á að skipa framúrskarandi hæfu starfsfólki, sé eftirsóknarverður starfsvettvangur með möguleika á starfsþróun og  að uppbygging hæfni sé á forsendum og í takt við þarfir greinarinnar.
Jafnframt var rætt um uppbyggingu á námi í ferðaþjónustu, hverjar þarfir ferðaþjónustunnar væru og að komið verði á samráðsgrunni, þ.e. hringrás upplýsinga, um þarfir og framboð fræðslu og hvernig Hæfnisetrið kæmi síðan fræðslu á framfæri við fyrirtæki.
Fagráðið er mjög mikilvægur samráðsaðili fyrir störf Hæfnisetursins og voru fundarmenn ánægðir með inntak og störf Hæfnisetursins hingað til á stuttum starfstíma þess. Setrið hefur starfað síðan í lok janúar í ár. Unnið er að þróun á ýmsum verkefnum sem munu líta dagsins ljós í lok sumar og í haust.
Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og í víðtækri samvinnu við alla hagaðila. Hlutverk Hæfnisetursins er að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og þar með auka gæði, fagmennsku og arðsemi greinarinnar. Áhersla er á að greina þarfir fyrirtækja og starfsfólks, móta leiðir, auka samvinnu og samræmingu við fræðslu og koma á framfæri við hag- og fræðsluaðila. Hæfnisetrið ferðaþjónustunnar fær fræðsluaðila til að standa fyrir árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar en stendur ekki fyrir námskeiðahaldi sjálft.

Hafðu samband