Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stofnað

Ferðamálaráðherra Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir skrifaði undir samning 18. jan. sl. við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Stjórnstöð ferðamála, á grundvelli samþykktar Alþingis frá því í október 2016, um verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar til að auka hæfni í ferðaþjónustu.

Í Vegvísi í ferðaþjónustu sem gefin var út í október 2015 er fyrst og fremst lögð áhersla á sjö þætti til að byggja traustan grunn fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og er aukning á hæfni einn sá mikilvægasti til að auka gæði, jákvæða upplifun ferðamanna og verðmætasköpun í greininni. Stjórnstöð ferðamála var falið að fylgja Vegvísinum eftir og gaf út skýrslu á sl. ári með tillögum til að auka hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu undir heitinu Fjárfestum í hæfni starfsmanna. Verkefnið um aukna hæfni er sett á laggirnar til að framkvæma tillögurnar í skýrslunni. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins, leiðir Hæfnisetrið, í samstarfi við Stjórnstöð ferðamála og Samtök ferðaþjónustunnar.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni í ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsemi setursins snýst um að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar fyrir aukna hæfni og auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta í hæfni starfsmanna. Byggt verður m.a. á hæfnigreiningum starfa til að undirbúa fræðslu og þjálfunarúrræði. Litið verður til annarra þjóða sem hafa þróað lausnir til að auka gæði, framleiðni og arðsemi í ferðaþjónustu á grundvelli hæfni stjórnenda og starfsmanna, m.a. til Skotlands og Kanada sem búa yfir víðtækri reynslu á þessu sviði.

Í Hæfnisetrinu verður áhersla á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að þróa leiðtogafræðslu, námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar.

Starfsnám í hinum fjölmörgu greinum ferðaþjónustunnar þarf að taka mið af hæfnikröfum og þörfum greinarinnar auk þess að taka mið af þörfum starfsfólks. Námsúrræðin miðast við íslenska hæfnirammann, en hæfniramminn var nýlega samþykktur af stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins og fræðsluaðilum, þ.m.t. formlega skólakerfinu og símenntunarmiðstöðvum.

Fjárfesting í hæfni starfsfólks er grundvallaratriði í sókn íslensku ferðaþjónustunnar til að auka gæði, starfsánægju, framleiðni og arðsemi. Samningurinn, sem undirritaður var í janúar, er skýr stefnumörkun stjórnvalda og atvinnulífs um vilja til að auka arðsemi í íslenskri ferðaþjónustu með því að auka hæfni og um leið verðmætasköpun.

Hafðu samband