Þjálfun í gestrisni – samningur við höfunda

Í liðinni viku undirritaði Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fyrir hönd Hæfniseturs í ferðaþjónustu, samning við Margréti Reynisdóttur og Sigrúnu Jóhannesdóttur um ráðgjöf og breytingar á fræðsluefni þeirra Margrétar og Sigrúnar sem ber heitið ”Þjálfun í gestrisni”. Markmið samningsins er að auka hæfni framlínustarfsmanna í ferðaþjónustu með því að kynna og koma í notkun þessu nýja námsefni höfunda sem þær hafa unnið síðustu 2 árin. Efnið var unnið með tilstyrk Fræðslusjóðs en með samningi FA fær Hæfnisetrið rétt til að breyta efninu að vild, búta það niður og koma á framfæri við alla fræðsluaðila. Námsefnið er þrepaskipt og er miðað að nokkrum hópum framlínustarfsmanna í ferðaþjónustu. Samningurinn kveður einnig á um aðstoð og ráðgjöf þeirra Margrétar og Sigrúnar við starfsmenn Hæfnisetursins við að aðlaga efnið að sérstökum markhópum. Efnið byggir á tilvitnunum í frásagnir ferðamanna af samskiptum sínum, jákvæðum og miður jákvæðum, við þjónustuaðila í íslenskri ferðaþjónustu og má nota dæmin til að draga lærdóma af gæðum þjónustu. Efnið má búta niður í stuttar einingar sem henta vel bæði til innri fræðslu í fyrirtækjum eða inn í fræðsluefni fræðsluaðila í lengri námslotum. Efnið hefur verið tilraunkeyrt í fyrirtækjum og fyrir liggur pólsk þýðing á efninu. Ensk útgáfa verður tilbúin öðru hvoru megin við áramótin.

Hafðu samband