Misskilningur um skoðunarferðir

SAGAN:

Unga parið ætlaði að fara í skoðunarferðir um helstu náttúrperlur á svæðinu sem þau voru að heimsækja. Skoðunarferðirnar voru bókaðar í gegnum hótelið sem þau gistu á. Það var búið að staðfesta allar tímasetningar tvisvar í tölvupóstsamskiptum hjá tveimur mismunandi starfsmönnum á hótelinu. Parið ætlaði að njóta tímans eftir skoðunarferðirnar í dekur. Þau pöntuðu því nudd og borð á mjög huggulegum veitingastað í gegnum hótelið.

Þeim var fagnað innilega þegar þau komu á hótelið. Þriðji móttökustarfsmaðurinn sem var á vakt sá að tímasetningar sem hinir móttökustarfsmennirnir höfðu staðfest í tvígang voru ekki réttar! Hófst þá klukkutímaferli við að reyna að leysa úr flækjunni hjá móttökustarfsmanninum. Hann varð orðinn mjög ergilegur þar sem hann þurfti að hringja fram og til baka. Það tókst á endanum! Þau misstu reyndar af nuddinu og upphaflegu borðapöntuninni. Kvöldmaturinn endaði sem snarlmáltíð sem þau gerðu skil á mettíma. Þau vildu nefnilega ekki missa af fyrstu ferðinni sem þau áttu nú skipulagða þetta kvöld en ekki næsta eins og upphaflega hafði verið áætlað. Skoðunarferðin var yndisleg þótt þau væru bæði komin með höfuðverk af stressi dagsins.

Næsta morgun þegar þau ætluðu að greiða reikninginn sáu þau að báðar skoðunarferðirnar voru á reikningnum. Starfsmaðurinn leiðrétti mistökin umsvifalaust og baðst innilega afsökunar. Það sem gestirnir vissu ekki var að næsta vandamál hjá starfsmanninum var að reyna að fá ferðaskrifstofuna til að fella niður kostnaðinn á fyrri ferðinni.

VERKEFNIÐ:

  • Hvað veldur þessum ruglingi með skoðunarferðirnar?
  • Hvað er hægt að álykta um stjórnun, samskipti og samvinnu í móttökunni?
  • Hvernig fagnar starfsfólk gestum innilega? Sviðsetjið.
  • Hvað gætu svona mistök kostað fyrirtækið?

Hafðu samband