Biðin eftir pöntun

SAGAN:

Vinahópur fór á þekkt steikhús á laugardagskvöldi. Ein úr hópnum sagði
vinnufélögum sínum frá kvöldinu á eftirfarandi hátt.

„Þegar við komum var bið eftir borðinu en okkur var boðið sæti frammi og tekin drykkjarpöntun. Þarna var engin tónlist spiluð og við ansi berskjölduð því lýsingin var sterk. Þar sem svæðið var alveg við innganginn horfðum við á þá sem fengu borð á undan okkar.

Okkur var loks vísað að mjög huggulegu borði. Viðkunnanlegur þjónn kom með matseðlana og svo kom annar jafn elskulegur til að fræða okkur um matseðilinn og taka drykkjarpantanir. Drykkirnir skiluðu sér til okkar, allir nema einn. Eftir drykklanga stund ákváðum við að spyrja um drykkinn. Fengum við fljótt þau svör að hann hefði því miður gleymst en kæmi að vörmu spori, sem hann gerði ásamt einlægri afsökunarbeiðni. Var okkur tjáð að hann væri án endurgjalds. Á meðan pöntuðum við af matseðlinum.

Forréttirnir voru ljúffengir en svo varð löng bið eftir aðalréttinum því kokkurinn hefði því miður misreiknað sig. Til að bæta okkur upp biðina fengum við aukaforrétt sem var enn dýrðlegri en sá fyrri. Eftir þó nokkra bið komu loks gómsætir aðalréttirnir. Eftirréttapöntunin hafa skolast til svo aftur upphófst bið. Við vorum komin í tímaþröng því við vorum að fara á tónleika. Eftirréttir voru
afþakkaðir í skyndi og beðið um reikning í einum grænum. Á leiðinni út úr dyrunum sáum við að það voru allnokkrir sem biðu eftir borði.“

VERKEFNIÐ:

  • Hvað veldur því að pöntun gleymist?
  • Hvernig er hægt að koma í veg fyrir það?
  • Hvað má áætla að mistök kvöldsins hafi kostað staðinn?
  • Hvað segir dæmisagan um teymisvinnuna á veitingastaðnum.
  • Hvernig mætti forgangsraða og skipuleggja tímann betur til að ljúka verkefnum?

 

Raundæmi frá Gerum betur.

Hafðu samband