• Fræðslutorg
  • Móttaka nýs starfsfólks – 5 hagnýt ráð fyrir stjórnendur

Móttaka nýs starfsfólks – 5 hagnýt ráð fyrir stjórnendur

Fagleg og góð móttaka nýs starfsfólks er lykillinn að farsælu samstarfi. Skýrt móttökuferli styttir aðlögunartíma starfsmannsins og virkjar hann til góðra verka fyrirtækinu til hagsbóta. Stjórnendum er hér bent á 5 góð ráð til árangurs.

1. undirbúningur

Settu upp ferli sem tryggir að móttaka nýs starfsfólks og þjálfun þess fari fram með skipulegum hætti. Upplýstu samstarfsfólk um komu nýja starfsmannsins áður en hann mætir, kynntu hlutverk hans á vinnustaðnum og brýndu fyrir starfsfólki að taka vel á móti honum. Við vorum öll einu sinni nýi starfsmaðurinn og það er gott að rifja það upp.

2. Leiðsögn

Fáðu til liðs við þig einn eða fleiri úr hópi reyndari starfsmanna til að þjálfa nýja starfsmanninn en ekki síður til að tryggja að hann komist inn í starfsmannahópinn. Tilvalið er að velja til verksins þá sem eru jákvæðir, þekkja verkefnin og vinnustaðinn vel, eiga auðvelt með samskipti og hafa áhuga á að leiðbeina öðrum. Mikilvægt er að starfsþjálfum sé gert kleift að sinna hlutverki sínu og fái í hendur gátlista um móttöku nýs starfsfólks.

3. KYNNING Á VINNUSTAÐNUM

Upplýstu um markmið og gildi fyrirtækisins og sjáðu til þess að nýi starfsmaðurinn upplifi strax að hann sé hluti af liðsheildinni. Komdu á framfæri fyrir hvað þið standið, hverjir eru viðskiptavinir fyrirtækisins og þjónustuviðmiðum. Gott er að deila markaðsefni fyrirtækisins með starfsfólki og tryggja sameiginlega sýn. Vettvangsferð um svæðið er góð leið til að kynna vinnustaðinn fyrir nýju starfsfólki.

4. Fræðsla og þjálfun

Tryggðu að nýi starfsmaðurinn fái viðeigandi fræðslu og þjálfun til að koma sér inn í starfið. Það eykur öryggistilfinningu nýs starfsmanns að hann fái heildaryfirlit yfir þá fræðslu sem hefur verið skipulögð fyrir hann og hvenær hún er áætluð. Á heimasíðu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar finnur þú fjölbreytt verkfæri, fræðsluefni og námskeið fyrir ferðaþjónustuna til að tryggja enn betri árangur.

5. Hlustun og endurgjöf

Veittu nýja starfsmanninum athygli og sýndu verkefnum hans áhuga. Hvettu hann til þess að koma með ábendingar og hugmyndir um það sem gera má betur. Á sama tíma aflar þú þér upplýsinga um hvernig gengur. Taktu stöðuna eigi síðar en mánuði eftir að starfsmaðurinn hóf störf. Hvernig líður honum í starfi? Hvað finnst honum um verkefnin sín? Er eitthvað sem kom honum á óvart? Hefur hann einhverjar spurningar?

Skráðu þig á póstlista Hæfnisetursins

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hýsir Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar verkefnið

Hafðu samband