Það var mikill áhugi og góður andi á fundum um stafræna markaðssetningu og gervigreind sem haldnir voru í síðustu viku á Húsavík og Sauðarkróki í boði Hæfnisetursins, SAF og Markaðsstofu Norðurlands.
Hátt í 80 ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi tóku þátt og sérfræðingar miðluðu þekkingu sinni og gáfu hagnýt ráð um helstu skrefin í innleiðingu stafrænnar tækni í ferðaþjónustuna, allt frá stöðutöku með Ferðapúlsinum að hagnýtingu gervigreindar í dagleg störf.



Áskoranirnar eru ótvíræðar en tækifærin eru langtum meiri og er von okkar að íslensk ferðaþjónusta tileinki sér nýjustu tæknilausnir hratt og örugglega og nái þannig mikilvægu samkeppnisforskoti með því að höfða til Z og Alpha kynslóðar ferðamanna sem eru nú þegar orðin yfir 50% ferðamanna til Íslands.
Vaxtartækifærin í ferðaþjónustu á Norðurlandi eru fjölmörg með áframhaldandi þróun áfangastaða og nýsköpun. Einnig eru tækifæri tengd alþjóðaflugsamgöngum, samvinnu ferðaþjónustuaðila sín á milli og ekki síst nýtingu tæknilausna til sjálfvirknivæðingar ýmissa þátta starfseminnar. Það skapar rými fyrir persónulega þjónustu og samskipti sem er svo dýrmætt í ferðaþjónustunni.



Við þökkum Markaðsstofu Norðurlands og SAF ásamt SSNE, SSNV, Þekkingarsetri Þingeyinga og Farskólanum fyrir ánægjulegt samstarf við undirbúning og framkvæmd fundanna, fyrirlesurum fyrir frábær erindi og ferðaþjónustuaðilum á Norðurlandi fyrir hlýjar móttökur og skemmtilegt samtal!