Það var fjölbreytt og fræðandi samtal sem átti sér stað á Málþingi um ferðaþjónustu á Vesturlandi á hótel Hamri í gær en viðburðurinn var sá fyrsti í fundaröð um landið sem Hæfnisetrið stendur fyrir í samvinnu við Markaðsstofur landshlutanna og SAF nú á vordögum.
Þar voru ræddar ýmsar hliðar á því hvernig starfsfólki ferðaþjónustu gengur að aðlagast samfélaginu og setjast að til frambúðar á Vesturlandi og hverjar helstu áskoranirnar eru varðandi það. Ríflega 40 manns skráðu sig á fundinn, hluti þeirra mætti á Hótel Hamar og þáðu hádegishressingu eftir fundinn en aðrir tóku þátt í fundinum í beinu streymi. Meðal framsögumanna var Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri sem sagði frá áskorunum og tækifærum sem Vík í Mýrdal stóð frammi fyrir við skyndilega fjölgun ferðamanna á svæðinu. Björn Bjarki Þorsteinsson sveitastjóri í Dalabyggð sagði frá áhugaverðu átaki sem nú stendur yfir til að gera sveitarfélagið að aðlaðandi íverustað og svo komu skemmtileg innslög frá starfsfólki í ferðaþjónustu á svæðinu sem hefur sest að til frambúðar.




Hæfnisetrið kynnti verkfæri sem eru aðgengileg á síðunni okkar og geta gagnast við að taka vel á móti nýju starfsfólki og skapa jákvæða fyrirtækjamenningu. Meðal annars kynntum við sniðmát að starfsmannahandbók sem einfalt er að vinna með og sniðmát að málstefnu en það er æ mikilvægara fyrir ferðaþjónustufyrirtæki í sínu fjölmenningarlega umhverfi að skapa sé ramma um hvernig unnið er með tungumál á vinnustaðnum. Vitund um hvaða tungumál eigi að nota, hvenær og hvers vegna er lykilatriði svo starfsfólk allt nái að upplifa sig sem hluta af vinnustaðnum og samfélaginu í kring. Í lok fundar voru líflegar pallborðsumræður og í kjölfarið hádegishressing og gott spjall meðal samstarfsfélaga.
Fyrir þau sem misstu af viðburðinum má nálgast upptöku af streyminu hér.
Næstu fundir verða haldnir í næstu viku á Húsavík og Sauðárkróki og er skráning hafin hér.