Ferðapúlsinn vígður á Mannamótum!

Ferðaþjónustuvikan náði hápunkti síðastliðinn fimmtudag á Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna. Það var margt um manninn og góð stemning eins og alltaf og sérlega hvetjandi að upplifa sköpunarkraftinn, jákvæðnina og samheldnina sem einkennir íslenska ferðaþjónustu. 

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar var að sjálfsögðu á staðnum og kynnti þjónustu sína og starfsemi fyrir gestum og gangandi. Við vorum sérlega stolt af því að kynna nýjustu afurð Hæfnisetursins Ferðapúlsinn-stafrænt,  sem gefur ferðaþjónustufyrirtækjum tækifæri til að mæla stafræna stöðu í sínum fyrirtækjum og fá tillögur að úrlausnum á aðeins nokkrum mínútum. Nýskipaður atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson vígði Ferðapúlsinn formlega á viðburðinum en Hæfnisetrið hefur unnið að þróun hans undanfarna mánuði í samvinnu við Ferðamálastofu, Íslenska ferðaklasann, Markaðsstofur landshlutanna og SAF. 

Það er ljóst á allri umræðu innan ferðaþjónustunnar að það er orðið aðkallandi að auka hæfni í stafrænni tækni markvisst, til að tryggja arðsemi, hagræðingu og samkeppnisforskot fyrirtækjanna innanlands sem og á alþjóðamörkuðum. Við vonum því að sem flest fyrirtæki í ferðaþjónustunni taki púlsinn hjá sér, kortleggi stöðuna og stígi þannig næstu skrefin í átt að stafrænni framtíð ferðaþjónustunnar. 

 Í grein sem birtist á Vísi 15.jan má lesa nánar um mikilvægi stafrænnar hæfni fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Sjá hér.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra opnar Ferðapúlsinn.

Hafðu samband