Heildstæð námslína í ferðaþjónustu – sú fyrsta sinnar tegundar

Í upphafi árs 2021 veitti menntamálaráðuneytið Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu (FAS) styrk til þess að skrifa heildstæða námskrá í ferðatengdum greinum í samstarfi við framhaldsfræðslu, framhaldsskóla og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar. Verkefninu skyldi lokið fyrir árslok með því að námskráin væri send til Menntamálastofnunar til staðfestingar. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og FAS hófu þegar samstarf og hafa í góðu samstarfi lagt grunn að þremur námsleiðum í ferðaþjónustu, fyrsta hluta heildstæðrar námslínu á öllum skólastigum. 

Til grundvallar vinnunni lágu niðurstöður skýrslu Hæfnisetursins,Hæfni er grunnur að gæðum, um fyrirkomulag náms í ferðaþjónustu, sem unnin var í nánu samstarfi við hagaðila í ferðaþjónustu, stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja, fulltrúa aðila atvinnulífsins, auk stjórnenda og starfsfólks skóla og fræðsluaðila.

Námið veitir þeim sem það sækja möguleika á að undirbúa sig fyrir störf í vaxandi atvinnugrein og tækifæri til starfsframa innan hennar.  

Helstu kostir námsins:

  1. Námið er þrepaskipt og hagnýtt með námslokum á 2. og 3. þrepi.
  2. Sameiginlegur kjarni fyrir alla. Til þess að ljúka námi á 2. þrepi bætist við ein sérhæfing.  Hægt er að velja á milli þriggja sviða: móttaka, veitingar, fjallamennska.
  3. Tvinnað er saman starfsnámi og bóknámi.
  4. Tækifæri til að fá reynslu metna til styttingar á námi.
  5. Námið er samræmt milli fræðsluaðila/skóla en unnt að aðlaga það þörfum og svæðum.
  6. Námsbrautin er fyrsta skrefið í átt að heildstæðu námi frá framhaldsfræðslu upp á háskólastig.

Nánari upplýsingar í nýjustu grein Gáttar.

 

Hafðu samband