„Framboð á ferðaþjónustu í formi sýndarveruleika mun aukast“

Ný skýrsla World Travel & Tourism Council (WTTC), To Recovery & Beyond: The Future of Travel & Tourism in the Wake of COVID-19, kynnir þá „strauma“ (e. trend) sem eru að endurmóta geirann og hvaða áhrif þeir hafa á helstu hagsmunaaðila. Þar kemur fram að þörf sé á hraðri nýsköpun í greininni. Ferðaþjónustan þurfi að laga sig að nýjum veruleika og endurskapa sig til að koma sterkari út úr ástandinu. Skýrslan byggir á viðtölum við stjórnendur í ferðaþjónustu og var fyrst birt í lok september sl.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur tekið saman helstu áhersluatriði í skýrslunni og birt undir heitinu Til bata og áfram á heimasíðu sinni, hæfni.is. Efnið er gagnlegt fyrir alla þá sem tengjast ferðaþjónustu á einn eða annan hátt og getur auðveldað endurkomu eftir að heimsfaraldrinum lýkur, sé tíminn nýttur til undirbúnings.

Eftirfarandi atriði koma fram í skýrslunni og gefa vísbendingar um það hvernig markaðurinn kemur til með að þróast:

  • Ferðamenn leita í auknum mæli í öryggi og áreiðanleika.
  • Þeir munu ferðast meira innanlands eða á sínu svæði. Jafnframt eru afskekktir og ævintýralegir staðir eftirsóknarverðir þar sem gera má ráð fyrir færra fólki.
  • Auknar óskir eru um sveigjanleika og að breytingar á bókunargjöldum feli ekki í sér kostnað.
  • Auknar kröfur eru um stafrænar og snertilausar lausnir í ferðaþjónustu.
  • Nauðsynlegt er að þjálfa starfsfólk með tilliti til nýrra hreinlætisreglna og tryggja öruggt vinnuumhverfi.
  • Þörf mun skapast fyrir aukinn sveigjanleika starfsfólks til að taka að sér fjölbreyttari verkefni. Felur í sér þörf á þjálfun á fjölþættari færni en áður.

Lesa útdrátt

Hafðu samband