Samstarfssamningur við Kompás þekkingarsamfélagið

Í dag undirrituðu Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) og Björgvin Filippusson stofnandi KOMPÁS Þekkingarsamfélagsins samstarfssamning er styður markmið og starfsemi samningsaðila með öflugu samstarfi og í framkvæmd ýmissa verkefna. FA vistar nýstofnað Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og fellur samstarfssamningurinn vel að þeim verkefnum sem þar er unnið að.

Með samstarfssamningnum er m.a. verið að hvetja til aukins samstarfs, tengslamyndunar og samvinnu í atvinnulífinu er styður faglega stjórnun, fræðslu, hæfni og gæði. Ennfremur að virkja miðlun og gerð hagnýtrar þekkingar, sem og að miðla hagnýtri þekkingu FA á vef KOMPÁS.

Gagnkvæmur ávinningur samstarfsaðila og þeirra sem standa þeim að baki er leiðarljós samningsins.

Hæfnisetrið kynnt á ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar

Í síðustu viku var Hæfnisetur ferðaþjónustunnar kynnt á ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) með opnun vefsíðu og öðru kynningarefni. Kynningin fór fram á fundi fagnefnda 15. mars og síðar í Hörpu á sjálfum ársfundi SAF, Ferðaþjónustudeginum, degi síðar, 16. mars sl.

Mikill fjöldi félagsmanna SAF og gesta sótti ársfundinn og var bás Hæfnisetursins fjölsóttur enda alltaf mikilvægt að ná spjalli við félagsmenn SAF. Kynningin tókst vel og við fengum fjölmargar ábendingar sem verða nýttar.

Á myndinni má sjá Hauk Harðarson hjá Fræðslumiðstöð atvinnnulífsins og Maríu Guðmundsdóttur hjá SAF glöð og kát við nýja kynningarefnið á bás Hæfnisetursins.

 

Grunnnámskeið fyrir almennt starfsfólk veitingahúsa

Skerpa býður upp á námskeið fyrir fólk í veitingasal. Leiðbeinendur eru framreiðslumenn með meistararéttindi og yfir 30 ára starfsreynslu í faginu.

Efnið er sniðið að þörfum eigenda og rekstraraðila veitingahúsa sem vilja efla sölustarf og verkþekkingu hjá sínu starfsfólki. Efnið er miðað að starfsfólki í veitingasal öðrum en sveinum, nemum og meisturum í framreiðslu.

Nánari upplýsingar má fá á skerpa@outlook.com

og hjá forsvarskonum Skerpu: Anna s. 699 5254 og María s. 848 4319

 

Fjarkinn – Fjögur hagnýt námskeið fyrir ferðaþjónustuna

Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi hefur skipulagt fjögur hagnýt námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila. Námskeiðin eru haldin á vinnustaðnum eða í húsnæði Fræðslusetursins ( Selfossi, Hellu, Hvolsvelli, Vík, Kirkjubæjarklaustri eða Höfn í Hornafirði).

Námskeiðin eru: 1) Ferðaþjónusta,umhverfi og mennning, 2) Þjónusta og gestrisni, 3) Mannauðurinn og vinnustaðurinn og 4) Meðferð matvæla – ofnæmi og óþol.

Sjá nánar hér á íslensku.

Sjá nánar hér á ensku.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stofnað

Ferðamálaráðherra Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir skrifaði undir samning 18. jan. sl. við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Stjórnstöð ferðamála, á grundvelli samþykktar Alþingis frá því í október 2016, um verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar til að auka hæfni í ferðaþjónustu.

Í Vegvísi í ferðaþjónustu sem gefin var út í október 2015 er fyrst og fremst lögð áhersla á sjö þætti til að byggja traustan grunn fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og er aukning á hæfni einn sá mikilvægasti til að auka gæði, jákvæða upplifun ferðamanna og verðmætasköpun í greininni. Stjórnstöð ferðamála var falið að fylgja Vegvísinum eftir og gaf út skýrslu á sl. ári með tillögum til að auka hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu undir heitinu Fjárfestum í hæfni starfsmanna. Verkefnið um aukna hæfni er sett á laggirnar til að framkvæma tillögurnar í skýrslunni. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins, leiðir Hæfnisetrið, í samstarfi við Stjórnstöð ferðamála og Samtök ferðaþjónustunnar.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni í ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsemi setursins snýst um að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar fyrir aukna hæfni og auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta í hæfni starfsmanna. Byggt verður m.a. á hæfnigreiningum starfa til að undirbúa fræðslu og þjálfunarúrræði. Litið verður til annarra þjóða sem hafa þróað lausnir til að auka gæði, framleiðni og arðsemi í ferðaþjónustu á grundvelli hæfni stjórnenda og starfsmanna, m.a. til Skotlands og Kanada sem búa yfir víðtækri reynslu á þessu sviði.

Í Hæfnisetrinu verður áhersla á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að þróa leiðtogafræðslu, námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar.

Starfsnám í hinum fjölmörgu greinum ferðaþjónustunnar þarf að taka mið af hæfnikröfum og þörfum greinarinnar auk þess að taka mið af þörfum starfsfólks. Námsúrræðin miðast við íslenska hæfnirammann, en hæfniramminn var nýlega samþykktur af stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins og fræðsluaðilum, þ.m.t. formlega skólakerfinu og símenntunarmiðstöðvum.

Fjárfesting í hæfni starfsfólks er grundvallaratriði í sókn íslensku ferðaþjónustunnar til að auka gæði, starfsánægju, framleiðni og arðsemi. Samningurinn, sem undirritaður var í janúar, er skýr stefnumörkun stjórnvalda og atvinnulífs um vilja til að auka arðsemi í íslenskri ferðaþjónustu með því að auka hæfni og um leið verðmætasköpun.