Þjálfun skilar sér í hæfara starfsfólki

Hótel Selfoss er staðsett á bökkum Ölfusár, miðsvæðis á Selfossi. Á hótelinu hefur þjálfun starfsmanna ekki verið í reglulegum farvegi en til stendur að fara í þarfagreiningu til að kortleggja þá fræðslu sem þörf er á og í framhaldinu að taka þjálfunarmál fastari tökum.
Á veitingarstaðnum Riverside sem er á hótelinu hefur hins vegar verið nokkuð regluleg þjálfun og leggur Hrefna Katrínardóttir, vaktstjóri metnað sinn í að hafa vel þjálfað starfsfólk í salnum. Þjálfun starfsmanna skilar okkur sannalega hæfara starfsfólki, sérstaklega finnst mér þjálfun sem fast ráðið starfsfólk fær skila sér vel og vonandi tekur sumarstarfsfólkið þekkinguna með sér og getur nýtt sér hana segir Hrefna.
Varðandi skipulag á fræðslu segir Hrefna að það virki best að fara út af vinnustaðnum með fræðsluna og að fá utanaðkomandi fræðsluaðila. Það virkar best að hafa þjálfunina og fræðsluna í stuttum lotum til að einbeiting haldist og mikilvægt að það séu verkefnaskil eða könnun því þá kemur meiri metnaður í starfsfólkið. Starfsfólk sem vinnur við þjónustu í sal þarf að hafa grunnþekkingu á vínum og mat. Slíkt starfsfólk er mjög eftirsótt og hefur Hrefna verið dugleg að nýta sér fræðslu frá byrgjum. Hrefna segir að lokum að hennar starfsfólk sé jákvætt fyrir þjálfun og fræðslu og finnist gaman að hittast utan vinnutíma þó svo tilefnið sér fræðsla.

Hafðu samband