Klasasamstarf skiptir máli fyrir smærri fyrirtæki.

Hveragerði er sjóðandi heitur bær þar sem náttúrufegurð Suðurlands er í fullum blóma. Frumskógar gistihús er fjölskyldurekið gistihús í bænum og þar starfa tveir til fimm starfsmenn eftir árstíðum.
Við erum þátttakendur í klasasamstarfi um fræðslu ásamt nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum í Hveragerði segir Kolbrún Bjarnadóttir eigandi.
Að vera hluti af slíkum klasa gerir okkur kleift að bjóða okkar starfsmönnum upp á fjölbreytt námskeið og ekki skemmir að kostnaðurinn verður miklu minni, þar sem við deilum honum með nokkrum fyrirtækjum.
Okkar starfsmenn hafa verið mjög ánægðir með þau námskeið sem þeir hafa sótt og finnst þau hafa meira sjálfstraust til að takast á við verkefnin.
Við vorum lengi búin að leita leiða til að bjóða okkar starfsmönnum upp á námskeið sem hentuðu fyrir okkar starfsemi. En bæði voru þau fá og allt of dýr fyrir svo lítil fyrirtæki.
Það er áskorun fyrir fyrirtæki sem eru í samkeppni að fara í slíkt samstarf en við sáum tækifærin sem þetta býður okkur upp á og höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum. Aukin fræðsla til starfsmanna kemur líka til með að efla faglega þjónustu og góða upplifun ferðamanna á svæðinu.

Hafðu samband