Eyja Guldsmeden hótel í samstarfi um fræðslu og þjálfun

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og  Mímir símenntun hafa gert samning við Eyja Guldsmeden hótel um greiningu fræðsluþarfa hjá þeim tæplega 30 starfsmönnum sem þar starfa. Verkefnið er tilraunaverkefni sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stendur að og er þriðja verkefnið sem fer af stað í Reykjavík.

 

Eyja Guldsmeden hótel í Brautarholti 10 – 14 er 65 herbergja hótel í eigu hjónanna Lindu Jóhannsdóttur og Ellerts Finnbogasonar.  Hótelið er rekið í samstarfi við dönsku hótelkeðjuna Guldsmeden hotels og starfar undir hennar nafni, en keðjan á og rekur hótel víða um heim.

 

Í anda Guldsmeden Hotels hefur Eyja hótel sjálfbærni og vistvernd að leiðarljósi. Spornað er gegn hvers kyns sóun og einblínt á að lágmarka matarsóun, endurnýta og endurvinna eins og kostur er.  Mikið er lagt uppúr persónulegri þjónustu og upplifun gesta.

 

Á myndinni er Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Inga Jóna Þórisdóttir frá Mímir og Linda Jóhannsdóttir frá Eyja Guldsmeden hótel.

 

Hafðu samband