Klasasamstarf skiptir máli fyrir smærri fyrirtæki.

Hveragerði er sjóðandi heitur bær þar sem náttúrufegurð Suðurlands er í fullum blóma. Frumskógar gistihús er fjölskyldurekið gistihús í bænum og þar starfa tveir til fimm starfsmenn eftir árstíðum.
Við erum þátttakendur í klasasamstarfi um fræðslu ásamt nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum í Hveragerði segir Kolbrún Bjarnadóttir eigandi.
Að vera hluti af slíkum klasa gerir okkur kleift að bjóða okkar starfsmönnum upp á fjölbreytt námskeið og ekki skemmir að kostnaðurinn verður miklu minni, þar sem við deilum honum með nokkrum fyrirtækjum.
Okkar starfsmenn hafa verið mjög ánægðir með þau námskeið sem þeir hafa sótt og finnst þau hafa meira sjálfstraust til að takast á við verkefnin.
Við vorum lengi búin að leita leiða til að bjóða okkar starfsmönnum upp á námskeið sem hentuðu fyrir okkar starfsemi. En bæði voru þau fá og allt of dýr fyrir svo lítil fyrirtæki.
Það er áskorun fyrir fyrirtæki sem eru í samkeppni að fara í slíkt samstarf en við sáum tækifærin sem þetta býður okkur upp á og höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum. Aukin fræðsla til starfsmanna kemur líka til með að efla faglega þjónustu og góða upplifun ferðamanna á svæðinu.

Klasasamstarf fyrirtækja í ferðaþjónustu

Á síðasta ári var farið af stað með klasaverkefni í ferðaþjónustu en verkefnið var fjármagnað af Starfsafli og Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks. Þau fyrirtæki sem tóku þátt í verkefninu voru Frost og funi, Skyrgerðin-Cafe & Bistro, Hótel Örk, Almar bakari og Gistiheimilið Frumskógar, öll í Hveragerði.

Um tilraunaverkefni var að ræða, þar sem greindar voru fræðsluþarfir fyrirtækjanna á grundvelli stefnu hvers fyrirtækis. Afurðin er ein sameiginleg fræðsluáætlun sem mun ná til allra fyrirtækjanna og taka tillit til þarfa hvers fyrirtækis fyrir sig.
Tildrög þess að þetta verkefni fór af stað er að mörg lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa leitað til starfsmenntasjóða um hvernig þeir gætu aðstoðað þau við greiningu á fræðsluþörfum og námskeiðahaldi fyrir sitt starfsfólk. Þar sem í mörgum tilfellum er um að ræða fyrirtæki með kannski 2-10 starfsmenn, þá er snúið hjá svo fámennum fyrirtækjum að koma á reglulegri þjálfun og jafnframt mjög kostnaðarsamt. Því kom hugmyndin um klasasamstarf, þ.e. að nokkur fyrirtæki tækju sig saman og nýttu einn og sama ráðgjafann til að greina fræðsluþarfir. Þau fengju síðan í framhaldinu fræðsluaðila til að skipuleggja og halda námskeiðin sem koma út úr greiningunni. Með þessu eru fyrirtækin í klasanum jafnframt að deila kostnaði vegna námskeiða.

Elfa Dögg Þórðardóttir eigandi Frost og Funa og Skygerðarinnar sagði að samstarf væri meira heldur en samkeppni hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í Hveragerði og því augljós hagur af því að taka þátt í slíku verkefni. Fræðslu er ábótavant og flókið að koma henni á en með þessum hætti það hægt. Þetta er mikilvægt en aukin fræðsla eflir sjálfstraust og vellíðan starfsfólksins okkar sem síðan skilar sér til gestanna, sagði Elfa.

Upplýsingaveita til ferðamanna-Málþing í Borgarnesi

Málþing um upplýsingaveitu til ferðamanna var haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi 8. júní sl. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar tók þátt í málþinginu. Haukur Harðarson var með kynningu á Hæfnisetri ferðaþjónustunnar þar sem hann fór meðal annars yfir markmið og tilgang setursins
Mörg önnur áhugaverð erindi voru flutt á málþinginu þar á meðal flutti Gary Breen, Head of Consumer Engagement frá Fáilte Ireland erindi sem hann kallaði Tourist Information in Ireland.
Hæfnisetrið tók einnig þátt í tveimur vinnustofum um gæða-, umhverfis- og fræðslumál. Haukur Harðarson og Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetrinu stýrðu vinnustofu um fræðslumál þar sem verkefnið var að kortleggja störf við upplýsingagjöf til ferðamanna. Markmið verkefnisins var að greina hvaða störf tengjast upplýsingagjöf til ferðamanna ásamt því að fá yfirsýn yfir störf í upplýsingagjöf og nýta þær upplýsingar til að móta og greina áhersluþætti í fræðslu fyrir ferðamenn.
Í framhaldinu er stefnt að því að fram fari hæfnigreiningar starfa í upplýsingamiðstöðvum sem framkvæmd verður með haustinu. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar gætu orðið grunnur að námskeiðum og jafnframt mætti  nýta þær til námskrágerðar eða raunfærnimats.

Fyrsti fundur fagráðs og stýrihóps

Fyrsti sameiginlegi fundur fagráðs og stýrihóps í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar var haldin í Húsi atvinnulífsins  þann 6. júní sl.  Tilgangur fundarins var að marka stefnu um hlutverk, framtíðarsýn og gildi Hæfniseturins. Ellefu einstaklingar sóttu fundinn fyrir utan starfsmenn Fræðslumiðstöðvarinnar sem hýsa verkefnið samkvæmt þjónustusamningi við Stjórnstöð ferðamála og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.
Framtíðarsýn Hæfnisetursins er að ferðaþjónustan hafi á að skipa framúrskarandi hæfu starfsfólki, sé eftirsóknarverður starfsvettvangur með möguleika á starfsþróun og  að uppbygging hæfni sé á forsendum og í takt við þarfir greinarinnar.
Jafnframt var rætt um uppbyggingu á námi í ferðaþjónustu, hverjar þarfir ferðaþjónustunnar væru og að komið verði á samráðsgrunni, þ.e. hringrás upplýsinga, um þarfir og framboð fræðslu og hvernig Hæfnisetrið kæmi síðan fræðslu á framfæri við fyrirtæki.
Fagráðið er mjög mikilvægur samráðsaðili fyrir störf Hæfnisetursins og voru fundarmenn ánægðir með inntak og störf Hæfnisetursins hingað til á stuttum starfstíma þess. Setrið hefur starfað síðan í lok janúar í ár. Unnið er að þróun á ýmsum verkefnum sem munu líta dagsins ljós í lok sumar og í haust.
Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og í víðtækri samvinnu við alla hagaðila. Hlutverk Hæfnisetursins er að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og þar með auka gæði, fagmennsku og arðsemi greinarinnar. Áhersla er á að greina þarfir fyrirtækja og starfsfólks, móta leiðir, auka samvinnu og samræmingu við fræðslu og koma á framfæri við hag- og fræðsluaðila. Hæfnisetrið ferðaþjónustunnar fær fræðsluaðila til að standa fyrir árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar en stendur ekki fyrir námskeiðahaldi sjálft.

Nám fyrir starfsþjálfa á vinnustað

Námskeið fyrir starfsþjálfa er byggt á TTRAIN verkefninu og hentar öllum þeim sem koma að þjálfun starfsfólks innan ferðaþjónustufyrirtækja.

Á námskeiðinu kynnast þátttakendur mismunandi kennsluaðferðum og mikilvægi skapandi aðferða í námi og kennslu. Einnig er farið í gegnum leiðtogahlutverk starfsþjálfans og hvernig hægt sé að hvetja starfsfólk til þátttöku og ábyrgðar í sinni vinnu.

Samhliða fræðslunni fá þátttakendur tækifæri til þess að skipuleggja og framkvæma þjálfun á vinnustað þar sem aðferðir og hugmyndir af námskeiðinu eru notaðar. Þetta fyrirkomulag styrkir verðandi starfsþjálfa í sjálfstæðum vinnubrögðum undir handleiðslu.

Námið byggir á samevrópsku verkefni sem styrkt er af Erasmus+ menntaáætlun ESB. Verkefnisstjórn er í höndum Rannsóknaseturs verslunarinnar og einnig taka þátt í því Samtök ferðaþjónustunnar og Háskólinn á Bifröst. Erlendir samstarfsaðilar eru frá Finnlandi, Austurríki og Ítalíu

Þjálfunin fer fram í sex lotum sem hver um sig leggur áherslu á ákveðna hæfniþætti sem eru þjálfaðir undir handleiðslu kennara. Þrjár staðlotur fara fram í Reykjavík og þá mæta þátttakendur í 6 klst. í senn en þess á milli er gert ráð fyrir að þeir vinni sjálfstætt að verkefnum á vinnustað sem tengjast þeirra starfssviði.

Allar nánari upplýsingar eru á vef SAF.

Samstarfssamningur við Kompás þekkingarsamfélagið

Í dag undirrituðu Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) og Björgvin Filippusson stofnandi KOMPÁS Þekkingarsamfélagsins samstarfssamning er styður markmið og starfsemi samningsaðila með öflugu samstarfi og í framkvæmd ýmissa verkefna. FA vistar nýstofnað Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og fellur samstarfssamningurinn vel að þeim verkefnum sem þar er unnið að.

Með samstarfssamningnum er m.a. verið að hvetja til aukins samstarfs, tengslamyndunar og samvinnu í atvinnulífinu er styður faglega stjórnun, fræðslu, hæfni og gæði. Ennfremur að virkja miðlun og gerð hagnýtrar þekkingar, sem og að miðla hagnýtri þekkingu FA á vef KOMPÁS.

Gagnkvæmur ávinningur samstarfsaðila og þeirra sem standa þeim að baki er leiðarljós samningsins.

Hæfnisetrið kynnt á ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar

Í síðustu viku var Hæfnisetur ferðaþjónustunnar kynnt á ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) með opnun vefsíðu og öðru kynningarefni. Kynningin fór fram á fundi fagnefnda 15. mars og síðar í Hörpu á sjálfum ársfundi SAF, Ferðaþjónustudeginum, degi síðar, 16. mars sl.

Mikill fjöldi félagsmanna SAF og gesta sótti ársfundinn og var bás Hæfnisetursins fjölsóttur enda alltaf mikilvægt að ná spjalli við félagsmenn SAF. Kynningin tókst vel og við fengum fjölmargar ábendingar sem verða nýttar.

Á myndinni má sjá Hauk Harðarson hjá Fræðslumiðstöð atvinnnulífsins og Maríu Guðmundsdóttur hjá SAF glöð og kát við nýja kynningarefnið á bás Hæfnisetursins.

 

Grunnnámskeið fyrir almennt starfsfólk veitingahúsa

Skerpa býður upp á námskeið fyrir fólk í veitingasal. Leiðbeinendur eru framreiðslumenn með meistararéttindi og yfir 30 ára starfsreynslu í faginu.

Efnið er sniðið að þörfum eigenda og rekstraraðila veitingahúsa sem vilja efla sölustarf og verkþekkingu hjá sínu starfsfólki. Efnið er miðað að starfsfólki í veitingasal öðrum en sveinum, nemum og meisturum í framreiðslu.

Nánari upplýsingar má fá á skerpa@outlook.com

og hjá forsvarskonum Skerpu: Anna s. 699 5254 og María s. 848 4319

 

Fjarkinn – Fjögur hagnýt námskeið fyrir ferðaþjónustuna

Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi hefur skipulagt fjögur hagnýt námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila. Námskeiðin eru haldin á vinnustaðnum eða í húsnæði Fræðslusetursins ( Selfossi, Hellu, Hvolsvelli, Vík, Kirkjubæjarklaustri eða Höfn í Hornafirði).

Námskeiðin eru: 1) Ferðaþjónusta,umhverfi og mennning, 2) Þjónusta og gestrisni, 3) Mannauðurinn og vinnustaðurinn og 4) Meðferð matvæla – ofnæmi og óþol.

Sjá nánar hér á íslensku.

Sjá nánar hér á ensku.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stofnað

Ferðamálaráðherra Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir skrifaði undir samning 18. jan. sl. við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Stjórnstöð ferðamála, á grundvelli samþykktar Alþingis frá því í október 2016, um verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar til að auka hæfni í ferðaþjónustu.

Í Vegvísi í ferðaþjónustu sem gefin var út í október 2015 er fyrst og fremst lögð áhersla á sjö þætti til að byggja traustan grunn fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og er aukning á hæfni einn sá mikilvægasti til að auka gæði, jákvæða upplifun ferðamanna og verðmætasköpun í greininni. Stjórnstöð ferðamála var falið að fylgja Vegvísinum eftir og gaf út skýrslu á sl. ári með tillögum til að auka hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu undir heitinu Fjárfestum í hæfni starfsmanna. Verkefnið um aukna hæfni er sett á laggirnar til að framkvæma tillögurnar í skýrslunni. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins, leiðir Hæfnisetrið, í samstarfi við Stjórnstöð ferðamála og Samtök ferðaþjónustunnar.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni í ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsemi setursins snýst um að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar fyrir aukna hæfni og auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta í hæfni starfsmanna. Byggt verður m.a. á hæfnigreiningum starfa til að undirbúa fræðslu og þjálfunarúrræði. Litið verður til annarra þjóða sem hafa þróað lausnir til að auka gæði, framleiðni og arðsemi í ferðaþjónustu á grundvelli hæfni stjórnenda og starfsmanna, m.a. til Skotlands og Kanada sem búa yfir víðtækri reynslu á þessu sviði.

Í Hæfnisetrinu verður áhersla á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að þróa leiðtogafræðslu, námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar.

Starfsnám í hinum fjölmörgu greinum ferðaþjónustunnar þarf að taka mið af hæfnikröfum og þörfum greinarinnar auk þess að taka mið af þörfum starfsfólks. Námsúrræðin miðast við íslenska hæfnirammann, en hæfniramminn var nýlega samþykktur af stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins og fræðsluaðilum, þ.m.t. formlega skólakerfinu og símenntunarmiðstöðvum.

Fjárfesting í hæfni starfsfólks er grundvallaratriði í sókn íslensku ferðaþjónustunnar til að auka gæði, starfsánægju, framleiðni og arðsemi. Samningurinn, sem undirritaður var í janúar, er skýr stefnumörkun stjórnvalda og atvinnulífs um vilja til að auka arðsemi í íslenskri ferðaþjónustu með því að auka hæfni og um leið verðmætasköpun.