Samningur um tilraunaverkefni í ferðaþjónustu undirritaður

Fummtudaginn 21. september var undirritaður samstarfssamningur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) við fjórar símenntunarmiðstöðvar um tilraunaverkefni um fræðslu starfsmanna í ferðaþjónustu. Framkvæmd samningsins verður í höndum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem FA vistar. Tilraunaverkefnið miðar að því að ná til fyrirtækja í ferðaþjónustu með fræðslu og þjálfun af ýmsu tagi. Hæfnisetrið mun sjá um útvegun nýrra og endurbættra verkfæra en megintilgangurinn er að samhæfa verkferla aðila, skiptast á efni, ráðgjöf og öðru sem að gagni kemur til auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og hvernig ná má til fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu. Undirritun samningsins var hluti af vinnudegi aðila verkefnisins þar sem farið var yfir verkferla og verkfæri sem nú standa til boða og verða reynd í tilraunaverkefninu. Ætlunin er að bjóða öllum fræðsluaðilum upp á þessi verkfæri að loknu tilraunaverkefninu. Dagurinn var okkur í Hæfnisetrinu mjög gagnlegur og fengum við mörg ráð í verkfærakistuna ekki síst frá þeim fulltrúum fyrirtækja sem þarna komu og miðluðu af reynslu sinni.

 

Fræðsla skilar öruggara og faglegra starfsfólki

Stofnendur fyrirtækisins þau Andrína Guðrún Erlingsdóttir og Benedikt Bragason hafa mikla reynslu af ferðalögum á fjöllum.  Undanfarin 20 ár hafa þau rekið ferðaþjónustu við Mýrdalsjökul og farið með ferðalanga upp á jökulinn og inn á hálendið á vélsleðum og jeppum. Hjá fyrirtækinu starfa um 25 manns og er skiptingin á milli íslenskra og erlendra starfsmanna nokkuð jöfn.

Mikil þekking hefur safnast saman í gegnum árin hjá starfsmönnum og höfum við verið að búa til fræðsluefni sem við notum í nýliðafræðslu sem byggir á fyrirlestrum og síðan verklegri þjálfun segir Tómas Magnússon einn af eigendum Arcanum.  Við skipuleggjum fræðslu eftir þörfum eins og  t.d. alltaf  þegar nýr starfsmaður kemur til starfa þá fer hann í gegnum nýliðaþjálfun sem felst i fræðslu um náttúruna, öryggi, ferðirnar, þjónustuna og viðhald og umgengni tækja og véla. Farið er vandlega yfir verklagsreglur  og verkferla.  Við byggjum þjálfuninn okkar út frá öryggisáætlununum.

Fræðsla og þjálfun hefur verið að skila okkur öruggara og faglegra starfsfólki, starfsfólk er fljótara að komast inn í starfið með góðri þjálfun. Námskeið Landsbjargar fyrsta hjálp í óbyggðum varð t.d. til þess að starfsfólki leið betur með  að hafa þessa þekkingu og varð faglegra í sínum störfum

Mikil keyrsla og vöxtur hefur verið í fyrirtækinu undanfarin ár. Við hefðum viljað hafa meiri tíma til að sinna fræðslumálum innan fyrirtækisins. Það  vantar formlega menntun í ferðaþjónustu segir Tómas. Ungt fólk þarf að sjá þennan starfsvettvang sem val sem framtíðarstarf.  Slíkt nám þarf að vera sniðið að þörfum þeirra sem eru starfandi í ferðaþjónustufyrirtækjum eins og bjóða  t.d. upp á  fjarnám með vinnu.

Við þurfum alla okkar fræðslu á ensku vegna þess að okkar gestir eru 99,9% erlendir ferðamenn og við þjónustum þau á ensku. Við viljum hafa alla okkar fræðslu á vinnustaðnum vegna þess að þá er hægt að miða við okkar aðstæður. Við þurfum sveigjanleika, hér er unnið á vöktum svo við þurfum að keyra hvert námskeið tvisvar. Við sækjumst t.d. eftir fræðslu um þjónustu, samskipti, leiðsögn, staðarþekkingu, öryggismál og fyrstu hjálp.

Kynning á verkefninu Þjálfun í gestrisni

Dagsetning: 28. september kl. 08:30 – 10:00
Staður: Hús atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík

Margrét Reynisdóttir og Sigrún Jóhannesdóttir kynna ,Þjálfun í gestrisni – Raundæmi og verkefni“. Þátttakendur fá að prófa hluta af þjálfunarefninu á staðnum. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Dagskrá:
• María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF
• Haukur Harðarson, verkefnastjóri Hæfniseturs ferðaþjónustunnar
• Sigrún Jóhannesdóttir, menntaráðfjafi: Fræðin á bakvið nýsköpunarverkefnið
• Margrét Reynisdóttir, ráðgjafi hjá www.gerumbetur.is: Hvað stöðu álitsgjafar?
• Tanía Smáradóttir, mannauðsstjóri hjá Hertz: Hvernig nýtist þjálfunarefnið?

Fræðslusjóður er sktyrktaraðili verkefnisins.
Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með kynningunni í gegnum netið senda á netfangið steinunn@frae.is

Skráning hér

Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, sem er verkefni vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, er að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar. Hæfnisetrið greinir þarfir fyrirtækja, mótar leiðir, eykur samvinnu og samræmingu við fræðslu og kemur henni á framfæri til fræðsluaðila og fyrirtækja innan ferðaþjónustu. Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og í víðtækri samvinnu og sátt við hagaðila í samfélaginu. Mikilvægt er að fræðsluaðilar standi fyrir árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar. Mat á árangri fræðslu á rekstur fyrirtækja er því einn af hornsteinum nálgunar setursins á fræðslu og hæfniaukningu í fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Leiðarljós hæfniaukningar í ferðaþjónustu er notkun og smíði verkfæra sem nýtast á hagnýtan hátt fyrir ferðaþjónustuna og á forsendum hennar. Aukin arðsemi og framleiðni eru lykilatriði, að öðrum kosti munu hvorki starfsfólk né stjórnendur nýta sér þau fræðsluúrræði sem eru í boði. Markmið allra í ferðaþjónustu eru ánægðir gestir.
Í sumar hefur verið unnið að skipulagningu á tilraunaverkefni sem verður farið af stað með í september. Tilraunaverkefnið felst í heildrænni nálgun á fræðslu með blöndu af utanaðkomandi fræðslu, innri fræðslu, rafrænni fræðslu og mat á árangri á rekstur. Fræðsla fer fram í fyrirtækjunum eða utan þeirra kjósi þau svo. Unnið er í því að festa niður þær símenntunarmiðstöðvar sem verða með í fyrsta fasa og verður því lokið fyrir 1. september. Mikill áhugi er hjá símenntunarmiðstöðvum og markaðsstofum sem rætt hefur verið við að taka þátt í fyrsta skrefi verkefnisins. Gerð hafa verið drög að þjálfun starfsmanna fræðsluaðila sem Hæfnisetrið sér um. Að loknu þessu tilraunaverkefni verður reynsla metin og fleiri fræðsluaðilum boðið í samstarf á þessu sviði.
Hæfnisetrið mun leggja til yfirfarið fræðsluefni sem unnið hefur verið af sjálfstæðum kennsluráðgjöfum með styrk frá Fræðslusjóði. Enn fremur hafa verið lögð drög að samkomulagi við vefgerðarstofu um notkun smáforrita (app) í snjallsímum í fræðslu en sá aðili hefur mikla reynslu á því sviði.

Ný TTRAIN námskeið fyrir starfsþjálfa að fara af stað

Háskólinn á Bifröst heldur þjú námskeið fyrir starfsþjálfa í ferðaþjónustu, TTRAIN, á haustönn 2017. Kennslulotur fara fram í Reykjavík.

Starfsþjálfanámið, TTRAIN, snýst um að þróa aðferðir til að mennta einstaklinga innan ferðaþjónustunnar sem sér um þjálfun nýrra starfsmanna innan fyrirtækja sem og endurmenntun þeirra sem fyrir eru. Námið byggir á samevrópsku verkefni sem styrkt var af Erasmus+ menntaáætlun ESB. Verkefnisstjórn var í höndum Rannsóknaseturs verslunarinnar og tóku Samtök ferðaþjónustunnar og Háskólinn á Bifröst einnig þátt í verkefninu.

Alls hafa á þriðja tug starfsmanna íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja lokið náminu. Kennt er einn dag í viku í þrjár vikur en þjálfunin fer fram í alls sex lotum sem hver um sig er helguð ákveðnum hæfniþáttum. Unnið er undir handleiðslu kennara og er mikil áhersla á skapandi lausnir. Hver og einn vinnur sjálfstætt að verkefnum á vinnustað sem tengjast þeirra starfssviði. Handleiðslu kennara lýkur einum til tveimur mánuðum eftir útskrift af námskeiðinu.

Námskeiðin hefjast að þessu sinni:

September – kennsludagar 5., 12. og 19. september

Október – kennsludagar 4., 11., og 18. október

Nóvember – kennsludagar 7., 14., og 21. nóvember

Opið er fyrir umsóknir á heimasíðu skólans. Fullt verð er 115.000 kr., verð fyrir félagsmenn í SAF 97.000 kr.

Nánari upplýsingar veita María Guðmundsdóttir í síma 822 0056 og á netfangið maria@saf.is og Hulda I. Rafnarsdóttir í síma 433 3133 og á netfangið simenntun@bifrost.is

Mynd. Útskriftahópur sem tók þátt í náminu í sl. vor.

Fyrirtæki geta fengið styrki til að fjármagna fræðslu

Í tengslum við kjarasamninga árið 2000 var samið um stofnun sérstakra sjóða sem ætlað er að byggja upp menntun almennra starfsmanna fyrirtækja. Símenntun starfsmanna er lykill fyrirtækja að betra starfsumhverfi, aukinni framleiðni og styrkir samkeppnisstöðu þeirra. Fyrirtæki geta sótt um styrk til starfsmenntasjóða vegna þeirra fræðslu sem þau bjóða sínu starfsfólki upp á.

Með einni umsókn á Áttinni getur fyrirtækið sótt um í marga sjóði samtímis ef starfsmenn fyrirtækisins eru í mismunandi stéttarfélögum.

Fyrirtæki með starfsfólk sem eru félagsmenn VR/LÍV geta sótt um styrki vegna náms og fræðslu starfsmanna til Starfsmenntasjóðs verslunar og skrifstofufólks.
Fyrirtæki sem greiða af starfsfólki til Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar, geta sótt um styrki til Starfsafls.
Fyrirtæki á landsbyggðinni sem eru með starfsfólk í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins á landsbyggðinni geta sótt um styrki til Landsmenntar.
Sjóður SA og Sambands stjórnendafélaga styrkja nám og fræðslu til fyrirtækja sem eru innan aðildarfélaga sambandsins.
Rafiðnaðarskólinn veitir þeim fyrirtækjum sem greiða af starfsmönnum sínum til Menntasjóðs rafiðnaðarins styrki vegna náms og fræðslu sinna stafsmanna.
Fyrirtæki sem greiða endurmenntunargjöld til IÐUNNAR eiga rétt á að sækja um fræðslustyrk vegna starfstengdra námskeiða.

Kynnið ykkur reglur sjóðanna á heimasíðum þeirra og sækið um á einu og sama eyðublaðinu í alla sjóðina í einu á www.attin.is

Fræðslumálin tekin föstum tökum hjá Grillhúsinu

Haustið 2016 byrjaði Eva Karen Þórðardóttir sem starfsmannastjóri hjá Grillhúsinu og fyrirtækjum þess. Hún byrjaði á að rýna í starfsemina og taka viðtöl við starfsfólkið. Þessi viðtöl gáfu henni mjög skýra sýn á hvað mátti betur fara og hvað var verið að gera vel.

Í framhaldinu voru reglur og ferlar skoðaðir vel. Starfsmannahandbók var skrifuð og er ætlunin að innleiða nýtt gæðakerfi sem er hugsað sem eftirfylgni með reglum og námskeiðum sem haldin verða.

Til að greina þörfina fyrir fræðslu og til að fá upplýsingar um hvaða námskeið væru í boði var ákveðið að fá fræðslustjóra að láni frá starfsmenntasjóðunum. Fræðslustjóri að láni hjálpaði þeim að greina þörfina fyrir námskeið og koma skipulagi á þau, einnig að setja eigin fræðslu fyrir Grillhúsið í fastar skorður, þar sem slík námskeið eru haldin reglulega.

Starfsmannaveltan er mikil í þessum bransa og skiptir það gríðalega miklu máli að starfsfólk fái þjálfun við hæfi, segir Eva Karen. Bæði því sem snýr að gæðamálum fyrirtækisins og vellíðan starfsfólksins. Það þarf jafnframt að þjálfa stjórnendur til að fylgja eftir réttu verklagi og eftirfylgnin/ eftirlit verður að vera til staðar.

Eva Karen segir að þau vilji að sjálfsögðu að starfsfólkinu líði vel hjá þeim og þeim líður mun betur þegar gott skipulag sé til staðar, það fær þjálfun við hæfi, veit hvað er ætlast til af þeim í starfi og veit að það er í lagi að gera misstök og læra af þeim. Sé hugað að öllum þessum þáttum þá mun starfsfólkið staldra lengur við hjá okkur, segir Eva Karen að lokum.

Klasasamstarf skiptir máli fyrir smærri fyrirtæki.

Hveragerði er sjóðandi heitur bær þar sem náttúrufegurð Suðurlands er í fullum blóma. Frumskógar gistihús er fjölskyldurekið gistihús í bænum og þar starfa tveir til fimm starfsmenn eftir árstíðum.
Við erum þátttakendur í klasasamstarfi um fræðslu ásamt nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum í Hveragerði segir Kolbrún Bjarnadóttir eigandi.
Að vera hluti af slíkum klasa gerir okkur kleift að bjóða okkar starfsmönnum upp á fjölbreytt námskeið og ekki skemmir að kostnaðurinn verður miklu minni, þar sem við deilum honum með nokkrum fyrirtækjum.
Okkar starfsmenn hafa verið mjög ánægðir með þau námskeið sem þeir hafa sótt og finnst þau hafa meira sjálfstraust til að takast á við verkefnin.
Við vorum lengi búin að leita leiða til að bjóða okkar starfsmönnum upp á námskeið sem hentuðu fyrir okkar starfsemi. En bæði voru þau fá og allt of dýr fyrir svo lítil fyrirtæki.
Það er áskorun fyrir fyrirtæki sem eru í samkeppni að fara í slíkt samstarf en við sáum tækifærin sem þetta býður okkur upp á og höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum. Aukin fræðsla til starfsmanna kemur líka til með að efla faglega þjónustu og góða upplifun ferðamanna á svæðinu.

Klasasamstarf fyrirtækja í ferðaþjónustu

Á síðasta ári var farið af stað með klasaverkefni í ferðaþjónustu en verkefnið var fjármagnað af Starfsafli og Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks. Þau fyrirtæki sem tóku þátt í verkefninu voru Frost og funi, Skyrgerðin-Cafe & Bistro, Hótel Örk, Almar bakari og Gistiheimilið Frumskógar, öll í Hveragerði.

Um tilraunaverkefni var að ræða, þar sem greindar voru fræðsluþarfir fyrirtækjanna á grundvelli stefnu hvers fyrirtækis. Afurðin er ein sameiginleg fræðsluáætlun sem mun ná til allra fyrirtækjanna og taka tillit til þarfa hvers fyrirtækis fyrir sig.
Tildrög þess að þetta verkefni fór af stað er að mörg lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa leitað til starfsmenntasjóða um hvernig þeir gætu aðstoðað þau við greiningu á fræðsluþörfum og námskeiðahaldi fyrir sitt starfsfólk. Þar sem í mörgum tilfellum er um að ræða fyrirtæki með kannski 2-10 starfsmenn, þá er snúið hjá svo fámennum fyrirtækjum að koma á reglulegri þjálfun og jafnframt mjög kostnaðarsamt. Því kom hugmyndin um klasasamstarf, þ.e. að nokkur fyrirtæki tækju sig saman og nýttu einn og sama ráðgjafann til að greina fræðsluþarfir. Þau fengju síðan í framhaldinu fræðsluaðila til að skipuleggja og halda námskeiðin sem koma út úr greiningunni. Með þessu eru fyrirtækin í klasanum jafnframt að deila kostnaði vegna námskeiða.

Elfa Dögg Þórðardóttir eigandi Frost og Funa og Skygerðarinnar sagði að samstarf væri meira heldur en samkeppni hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í Hveragerði og því augljós hagur af því að taka þátt í slíku verkefni. Fræðslu er ábótavant og flókið að koma henni á en með þessum hætti það hægt. Þetta er mikilvægt en aukin fræðsla eflir sjálfstraust og vellíðan starfsfólksins okkar sem síðan skilar sér til gestanna, sagði Elfa.

Upplýsingaveita til ferðamanna-Málþing í Borgarnesi

Málþing um upplýsingaveitu til ferðamanna var haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi 8. júní sl. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar tók þátt í málþinginu. Haukur Harðarson var með kynningu á Hæfnisetri ferðaþjónustunnar þar sem hann fór meðal annars yfir markmið og tilgang setursins
Mörg önnur áhugaverð erindi voru flutt á málþinginu þar á meðal flutti Gary Breen, Head of Consumer Engagement frá Fáilte Ireland erindi sem hann kallaði Tourist Information in Ireland.
Hæfnisetrið tók einnig þátt í tveimur vinnustofum um gæða-, umhverfis- og fræðslumál. Haukur Harðarson og Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetrinu stýrðu vinnustofu um fræðslumál þar sem verkefnið var að kortleggja störf við upplýsingagjöf til ferðamanna. Markmið verkefnisins var að greina hvaða störf tengjast upplýsingagjöf til ferðamanna ásamt því að fá yfirsýn yfir störf í upplýsingagjöf og nýta þær upplýsingar til að móta og greina áhersluþætti í fræðslu fyrir ferðamenn.
Í framhaldinu er stefnt að því að fram fari hæfnigreiningar starfa í upplýsingamiðstöðvum sem framkvæmd verður með haustinu. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar gætu orðið grunnur að námskeiðum og jafnframt mætti  nýta þær til námskrágerðar eða raunfærnimats.