Friðheimar í samstarfi við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunetið á Suðurlandi

Fræðslunetið á Suðurlandi og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hafa gert samning við Friðheima um greiningu fræðsluþarfa hjá fyrirtækinu. Verkefnið er annað tilraunaverkefni sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stendur að og fer af stað á Suðurlandi. Fræðslunetið sér um framkvæmdina og er greiningin kostuð af starfsmenntasjóðum.

Í Friðheimum eru ræktaðir tómatar allan ársins hring og fá gestir innsýn í ræktunina með stuttum og fræðandi fyrirlestri. Í gestastofunni má líka skoða sýningu um ylrækt á Íslandi. Þá er hægt að taka gómsætar minningar með sér heim, því það eru til sölu matarminjagripir á borð við tómatsultu, gúrkusalsa og tómathressi. Veitingarstaðurinn í gróðurhúsinu bíður upp á  einstakrar matarupplifanir, þar sem tómatarnir vaxa allt árið um kring! Tómatsúpa og nýbakað brauð ásamt öðru góðgæti í notalegu umhverfi innan um tómatplönturnar. Í Friðheimum er einnig stunduð hrossarækt og ferðamönnum boðið upp á hestasýningu á fjórtán tungumálum.

 

Ferðaþjónustudagurinn 2018

ÁVÖRP

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar 2014 – 2018

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra

Efnahagsleg fótspor ferðamanna

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins

Sjálfbær ferðaþjónusta – leiðin til framtíðar

Dr. Snjólaug Ólafsdóttir, stofnandi og eigandi Andrýmis ráðgjafar

Fólkið og ferðaþjónustan

Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu

FÓTSPOR FERÐAÞJÓNUSTUNNAR

Spjallborð

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis – og auðlindaráðherra, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Lokaorð

Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands

Fundarstjóri

Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlamaður, sem jafnframt stýrir umræðum

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG

Ævintýraferðaþjónusta á Hornafirði – nýsköpun og menntun

Háskólasetrið og FAS eru í forsvari fyrir tveimur fjölþjólegum verkefnum sem snúast um þróun, nýsköpun og menntun í ævintýraþjónustu. Verkefnin nefnast SAINT – Slow Adventure in Northern Territories, styrkt af Norðurslóaðáætlun Evrópusambandsins og ADVENT – Adventure Tourism in Vocational Education and Training, styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins (Erasmus +)

Í dag 14. mars var haldin ráðstefna þar sem innlendir og erlendir samstarfsaðilar FAS og Rannsóknasetursins í SAINT og ADVENT héldu sameiginlega ráðstefnu á Höfn. Fulltrúar frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar tóku þátt í ráðstefnunni.

SAINT er samstarfsverkefni fjölmargra aðila (háskóla, stofnana, markaðsstofa og ferðaþjónustufyrirtækja) í sjö löndum: Skotlandi, Írlandi, Norður Írlandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Meginmarkmiðið SAINT er að vinna með fyrirtækjum í afþreyingarferðaþjónustu að vöruþróun og markaðssetningu.

Íslenski hluti verkefnisins er unnin í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð ferðamála en með aðaláherslu á ferðaþjónustuaðila á Hornafirði.

ADVENT er samstarfsverkefni framhalds- og háskóla, rannsóknarstofnana og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í afþreyingarferðaþjónustu í Finnlandi, Skotlandi og á Íslandi. Megin markmið þess er að virkja á markvissan hátt þann mannauð, þekkingu og reynslu sem afþreyingarferðaþjónusta býr yfir til eflingar fyrirtækjanna og samfélagsins í heild.

 

 

Flúðasveppir – Farmes bistro fyrstir á Suðurlandi til að skrifa undir samning um tilraunaverkefni

Flúðasveppir – Farmers bistro er fyrsta fyrirtækið í ferðaþjónustu á Suðurlandi til að taka þátt í verkefni á vegum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar um markvissa hæfniuppbyggingu starfsmanna.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar vinnur, á forsendum ferðaþjónustunnar, að því að auka hæfni starfsfólks og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar. Til þess að ná þessu markmiði hóf Hæfnisetrið tilraunaverkefni haustið 2017 sem byggir á því að greina fræðsluþarfir ferðaþjónustufyrirtæja og til að standa fyrir mælanlegri og árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar.
Þann 23. febrúar voru undirritaðir samningar um framkvæmd verkefnisins hjá Flúðasveppum – Farmers bistro sem er blandað matvæla- og ferðaþjónustufyrirtæki. Fræðslunetiði sér um framkvæmd greininga og fræðslu í umboði Hæfnisetursins og starfsmennastjóðsins Landsmenntar sem kostar verkefnið.
Í upphafi verkefnisins eru væntingar fyrirtækisins til fræðslu og fræðsluþarfir starfsmanna greindar. Í kjölfarið er útbúin áætlun um fræðslu og þjálfun. Árangursmælikvarðar eru gangsettir við upphaf fræðslunnar og eru þeir virkir í tólf mánuði eftir að fræðslu er lokið.
Nú þegar er ljóst að fleiri ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi munu taka þátt í tilraunaverkefninu á næstu mánuðum og búast má við meiri og almennari þátttöku ferðaþjónustuaðila fljótlega eftir að árangur verkefnisins verður gerður ljós. Upplýsingar um verkefnið á Suðurlandi veita Eyjólfur Sturlaugsson (eyjolfur@fraedslunet.is) hjá Fræðslunetinu og Valdís Steingrímsdóttir (valdis@frae.is) hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar.

Fræðsla er stór þáttur í starfseminni

Kynnisferðir – Reykjavík Excursions er fyrirtæki sem býður upp á úrval ferða og afþreyingu fyrir einstaklinga og hópa. Starfsemin er fjölbreytt, en hún felst m.a. í rekstri ferðaskrifstofu, bílaleigu, langferðabíla og strætisvagna. Félagið rekur líka þvottastöð og bifreiðaverkstæði. Kynnisferðir hafa rekið Flugrútuna milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar síðan 1979. Félagið fagnar 50 ára starfsafmæli á þessu ári.

Kynnisferðir – Reykjavík Excursions er stolt af því að vera fyrsta íslenska ferðaskrifstofan sem hlotið hefur ISO14001 vottun fyrir umhverfisstjórnun frá British Standard Institute (BSI). Fyrirtækið er einnig með vottun frá Vakanum, bæði fyrir gæðakerfið og umhverfiskerfið, auk þess að vera með jafnlaunavottun ÍST85.

Hjá fyrirtækinu starfa um 580 manns á ársgrundvelli og yfir sumarmánuðina getur fjöldi starfsmanna farið upp í 650. Mikill meirihluti starfsmanna er íslenskur, en hlutfall erlendra starfsmanna hefur aukist undanfarin ár. Er þar um að ræða bílstjóra, verkstæðismenn og nokkra leiðsögumenn. Allir hafa starfsmennirnir staðið sig með afbrigðum vel í annars krefjandi og hröðu umhverfi ferðaþjónustunnar. Höfuðstöðvar Kynnisferða – Reykjavík Excursions eru í Klettagörðum 12, en þar er bílaverkstæðið og þvottastöðin, en einnig yfirstjórn, sölu- og markaðsdeild, gæða-, mannauðs- og umhverfisdeild, fjárreiðu- og launadeild, tölvudeild, þjónustuver og Bílaleiga Kynnisferða. Allar ferðir Kynnisferða – Reykjavik Excursions hefjast við BSÍ, en þar er líka rekstrardeild félagsins ásamt afgreiðslu og miðasölu. Þriðja starfsstöðin er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en þar er stunduð upplýsingagjöf og miðasala, auk þess sem starfsmenn þar sjá um hluta bókana fyrir söludeildina.

Vilborg Magnúsdóttir sér um fræðslumál fyrirtækisins. Hún segir að fræðsla sé og eigi að vera stór þáttur af starfseminni. Fyrir nokkrum árum fengu Kynnisferðir Fræðslustjóra að láni þar sem rýnt var í þarfir og innleidd var ítarlegri fræðsluáætlun en áður hafði verið stuðst við. Þó ýmislegt hafi breyst síðan þá eru enn ákveðnir þættir í fræðslunni sem eru hluti af grunnfræðslu. Vilborg segir að dæmi um reglubundna fræðslu er almenn nýliðafræðsla, fræðsla í tengslum við umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO14001, upprifjunarnámskeið í skyndihjálp. Sérhæfð námskeið sem hæfa ákveðnum hópum eru efnanámskeið, eldvarnarnámskeið, námskeið í akstursfærni, sérþekking í tengslum við rafbúnað bíla, keðjunámskeið, námskeið er varðar ógnandi hegðun, þjónustunámskeið og kennsla á þau kerfi sem hver starfsmannahópur þarf að vinna með. Hjá félaginu starfar bæði öryggisráð og öryggisnefnd og fræðsla er stór þáttur í forvörnum og öryggismálum. Upplýsingafundir eru haldnir varðandi tjón og hverskonar slys. Þá hefur ákveðinn hópur starfsmanna í samstarfi við Save Travelfengið fræðslu er varðar öryggi ferðamanna. Með það í huga er nú verið að uppfæra heimasíðu félagsins til að koma skilaboðum um öryggi ferðamanna á framfæri. Kynnisferðaskólinn hefur haldið utan um endurmenntun bílstjóra og hefur sú fræðsla verið mjög regluleg á undanförnum mánuðum. Tæplega 40 námskeið hafa verið haldin hingað til. Félagið horfir meira í átt til rafrænnar fræðslu sem er tímanna tákn og lítur félagið á það sem spennandi tækifæri og áskorun. Að lokum segir Vilborg að Kynnisferðir – Reykjavik Excursions leiti stöðugt að leiðum og tækifærum til að gera betur og til að sofna ekki á verðinum. Markmiðið er að allir starfsmenn geti þróað sig í starfi og sem einstaklingar og eflist við það að læra meira og bæta stöðugt við þekkingu og færni.

Iceland Travel menntafyrirtæki ársins

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt 15. febrúar sl. Iceland Travel er menntafyrirtæki ársins 2018. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar afhenti verðlaunin á árlegum menntadegi atvinnulífsins sem var haldinn í Hörpu.

Iceland Travel er leiðandi ferðaskrifstofa í móttöku erlendra ferðamanna sem byggir á áratuga reynslu. Ársveltan stefnir í 14 milljarða og farþegar sem koma til Íslands á vegum Iceland Travel eru eitt hundrað og fimmtíu þúsund. Átta af hverjum tíu starfsmanna fyrirtækisins hafa lokið háskólaprófi, flestir af viðskipta, ferðamála- eða tungumálabrautum.

„Það er mikill heiður að fá Menntaverðlaun atvinnulífsins. Þekking og færni starfsfólks er lykilatriði fyrir þjónustufyrirtæki eins og Iceland Travel sem starfar í harðri alþjóðlegri samkeppni. Við höfum því lagt mikla áherslu á þennan þátt í starfsemi okkar.

Fræðslustarf okkar hefur verið rekið undir merkjum Iceland Travel skólans. Þar hafa fjölmargir utanaðkomandi sérfræðingar á sínu sviði kennt námskeið og haldið fyrirlestra. Skólinn hefur einnig verið góður vettvangur fyrir starfsfólk að miðla af þekkingu sinni og reynslu. Hjá þeim 200 starfsmönnum sem starfa hjá Iceland Travel er hafsjór þekkingar á Íslandi sem áfangastað, markaðsmálum og ferðamálum. Verðlaunin er okkur mikil hvatning  að halda áfram á þessari braut,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel en stjórnendur Iceland Travel líta á fræðslu og starfsþróun starfsmanna sem fjárfestingu í framtíðinni enda hefur það skilað sýnilegum árangri.

Árangursmælikvarðar – verkfæri fyrir sí- og endurmenntun

KOMPÁS og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins / Hæfnisetur ferðaþjónustunnar ætla ásamt sérfræðingum og reynsluboltum úr atvinnulífi og skólum að takast á við áskorunina að finna árangursmælikvarða / verkfæri fyrir sí- og endurmenntun. Mánudaginn 12. febrúar hittist ráðgjafahópur til að ræða þetta frekar og hvernig árangursmat gæti verið framkvæmt. Mikil þekking er til á þessu sviði, en áskorunin er að finna eða útbúa verkfærin.

Við köllum eftir öllum ábendingum og hugmyndum í þessu sambandi – Vinsamlegast hafið samband við Svein hjá FA í sveinn@frae.is og eða Björgvin í bf@kompas.is eða 864 4604

 

 

Bæta þarf gæði í ferðaþjónustunni

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar bíður ferðaþjónustufyrirtækjum að taka þátt í verkefni til að auka hæfni starfsmanna í greininni. Hæfnisetrið er samstarfsverkefni hagsmunaaðila í ferðþjónustunni til að auka hæfni starfsmanna ferðaþjónustunnar og er í samvinnu um fræðsluverkefni við símenntunarmiðstöðvar á landsvísu. Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar er að starfa á forsendum ferðaþjónustunnar til að auka hæfni starfsfólks og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar.

Samkvæmt könnun Ferðamálastofu frá árinu 2014 töldu um 40% erlendra ferðamanna að gæði ferðaþjónustu þyrfti að bæta. Við í Hæfnisetrinu teljum að ein mikilvægasta leiðin til þess sé að auka hæfni starfsfólks í greininni og það gerum við með markvissri þjálfun og fræðslu í samstarfi við fræðsluaðila. Við leggjum áherslu á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að aðstoða fyrirtæki að koma á markvissri fræðslu í fyrirtækjum, þróa leiðtogafræðslu og námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar

Hæfnisetrið er í samstarfi við símenntunarmiðstöðvarnar  sem sjá  um framkvæmd verkefnisins. Ferðaþjónustufyrirtækjum er boðið að taka þátt í þessu tilraunaverkefni og verða símenntunarmiðstöðvarnar umsjónaraðilar fræðslunnar, sem verður sérsniðinn að hverju fyrirtæki. Símenntunarmiðstöðvarnar  hafa á að skipa einvala liði sérfræðinga með mikla reynslu af þjálfun og fræðslu. Hæfnisetrið kemur að verkefninu með ráðgjöf og öðrum stuðningi.

Þörfin fyrir þjálfun og fræðslu í fyrirtækjum verður metin og greind og í kjölfarið útbúin fræðsluáætlun eftir þörfum og óskum hvers fyrirtækis og í samráði við stjórnendur og starfsmenn. Símenntunarmiðstöðvarnar sjá um að koma áætluninni í framkvæmd í nánu samstarfi við fyrirtækið og á forsendum þess.

Freðaþjónustufyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér þetta verkefni nánar geta sent póst á haefni@haefni.is eða hringt í síma 599 1400

Fjárfesting í hæfni starfsfólks með fræðslu og þjálfun er grundvallaratriði í sókn íslensku ferðaþjónustunnar til að auka gæði, starfsánægju, framleiðni og arðsemi. Fjárfesting sem skilar sér fljótt

Raunfærnimat í matvæla- og veitingagreinum

Nú stendur yfir skráning í raunfærnimat í matvæla- og veitingagreinum (matreiðslu og matartækni) hjá IÐUNNI fræðslusetri.

Raunfærnimat er leið til að meta þá færni og þekkingu sem öðlast má á vinnumarkaði og getur mögulega stytt nám. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru 23 ára aldur og 3 ára staðfest starfsreynsla í viðkomandi grein. Þessi leið hefur skilað góðum árangri þar sem margir þátttakendur raunfærnimatsins hafa haldið áfram námi og lokið sveinsprófi að loknu matinu.

Allar nánari upplýsingar gefa náms- og starfsráðgjafar IÐUNNAR í síma 5906400. Einnig má senda tölvupóst á radgjof@idan.is

BÚIN AÐ VERA Í FERÐAÞJÓNUSTU Í YFIR 30 ÁR.

Brunnhóll Gistiheimilið er staðsett á Suðausturlandi um það bil 30 km. frá  Höfn í Hornafirði. Brunnhóll er í eigu og rekið af Sigurlaugu Gissurardóttur og Jóni Kristinni Jónssyni.  Þau byrjuðu með ferðamannastarfsemi á Brunnhóli árið 1986. Brunnhóll er fjölskylduvænt gistiheimili sem er stolt af því að geta veitt gestum sínum persónulega þjónustu.

Brunnhóll Gistiheimilið starfar í anda dagskrár 21, með áherslu á hágæða þjónustu og virðingu fyrir umhverfinu. Markmiðið er að staðfesta sjálfbæra þróun, með löngun til að vernda hagsmuni komandi kynslóða.

Á gistiheimilinu eru 22 herbergi og í boði er herbergi með aðstöðu fyrir fatlaða, boðið er upp á morgunverð,  léttan hádegisverð, kvöldverð og gestir geta pantað hádegis matarpakka til að taka með sér. Starfsmenn eru um 10 talsins. Árið 2007 stofnuðu þau Jöklaís og síðan hafa þau boðið gestum og gangandi upp á hágæða ís og nú geta gestir valið sitt uppáhalds bragð af þeim 400 uppskriftum sem eru í boði.

Í samtali við Sigurlaugu kom fram að erlendir starfsmenn eru í meirihluta hjá henni. Hún er t.d með starfsfólk sem er útskrifað úr hótelskólum frá Lettlandi og veitingahússtjórnun frá Finnlandi.  Það skiptir máli að starfsmenn hafi góða staðarkunnáttu, fagleg þjónusta og þekking á þeim matvælum sem við bjóðum upp á skiptir miklu máli að starfsmenn tileinki sér.

Varðandi fræðslu og námskeið fyrir starfsmenn segir Sigurlaug að hún sé í góðu sambandi við Nýheima á Höfn og það skipti máli að fræðslan sé markviss og að starfsmenn fái tilfinningu fyrir því að þau geti orðið betri starfsmenn að henni lokinni.  Með því að fræða starfsmenn þá ert þú í leiðinni að segja þeim að þeirra vinna skipti miklu máli og það skiptir líka máli að fræðslan sé metin segir Sigurlaug.

Vakinn heldur manni við efnið segir Sigurlaug og maður er alltaf að reyna að bæta við. Félag ferðaþjónustubænda er árlega með uppskeruhátíð og þar er yfirleitt boðið upp á námskeið sem við höfum nýtt okkur.

Sigurlaug segir að lokum að henni finnist skynsamlegt ef farið væri með fræðslu um ferðaþjónustu og möguleika á námi í efstu bekki grunnskóla og fyrsta bekk í framhaldsskóla.