Er starfsfólkið þitt framúrskarandi gestrisið?

Þjálfun í gestrisni er efni sem er aðgengilegt frítt á vef Hæfniseturs ferðaþjónustunnar HÉR

Efnið er á íslensku, ensku og pólsku

Efnið er ætlað til þjálfunar og fræðslu á vinnustað. Starfsmaður í fyrirtækinu getur haldið utan um þjálfunina í samstarfi við vinnuveitanda eða fengið utanaðkomandi fræðsluaðila í verkið.

Efnið byggir á stuttum fjölbreyttum sögum, af atburðarás sem átt hefur sér stað við ákveðnar aðstæður. Tilvalið að nota t.d. eina til tvær sögur á starfsmannafundum.

Þjálfunarefnið miðast við fjóra starfaflokka sem eru:

* Móttaka og aðbúnaður

* Veitingar

* Þrif og umgengni

* Bílaleiga

Bus4u Iceland á leið í metnaðarfulla vegferð fræðslu og þjálfunar

Á dögunum skrifuðu Bus4u Iceland, MSS (Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum) og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar undir þríhliðasamning með það að markmiði að koma á markvissri fræðslu sem styður við hæfniuppbyggingu innan fyrirtækisins. Í því felst að greina fræðsluþarfir, gera fræðsluáætlun, fylgja henni eftir og meta árangurinn.

Starfsemi Bus4u Iceland hófst árið 2005 og þar er um 30 starfsmenn sem allir hafa fjölbreytta reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu.

Bus4u Iceland sé meðal annars um akstur almenningssamgangna í Reykjanesbæ og til Grindavíkur ásamt því að sinna skóla- og leikskólaakstri sem þau leggja mikinn metnað í að sinna vel. Þá sjá þau um akstur með flugfarþega og áhafnir þeirra sem og akstur innan öryggissvæðis flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Jafnframt eru í boði ýmiskonar afþreyingarferðir ásamt skipulögðum ferðum fyrir hópa.

Fyrirtækið leggur áherslu á gæði í þjónustu og að skapa starfsumhverfi sem gerir starfsmönnum kleift að vaxa og dafna í starfi.

Bus4u Iceland vill veita framúrskarandi þjónustu og að starfsmenn þeirra séu ánægðir í starfi. Með því að fræða og þjálfa starfmenn telur Bus4u Iceland að hægt verði að ná þessum markmiðum og það verði fyrirtækinu, starfsmönnum og samfélaginu til góðs.

 

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Gerum betur halda á vit ævintýra!

Midgard adventure  og Midgard Base Camp hafa hafið samstarf um fræðslu og þjálfun við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Gerum betur.

Midgard adventure  og Midgard Base Camp eru fjölskyldufyrirtæki á Suðurlandi sem bjóða upp á ævintýraferðir, gistingu og reka jafnframt veitingastað og bar. Fyrirtækin eru á Hvolsvelli í hjarta Suðurlands nærri mörgum náttúruperlum Íslands eins og Þórsmörk, Landmannalaugum, svörtum ströndum og fallegum fossum.

Starfsmenn eru um 30 í báðum fyrirtækjunum og flestir hafa alist upp á Hvolsvelli eða á nærliggjandi bæjum og þeir elska að sýna gestum alla fallegu staðina í næsta nágrenni.  Ævintýraferðirnar geta verið frá einum degi upp í margra daga ferðir þar sem farið er meðal annars í jeppaferðir, snjósleðaferðir, fjallahjólaferðir, gönguferðir í óbyggðum eða ísklifur.

Þau bjóða líka upp á ýmsa valkosti fyrir fyrirtæki þar sem tvinnað er saman ævintýri með Midgard Adventure við mat og drykk hjá Midgard Base Camp.

Segja má að Hæfnisetrið og Gerum betur hafi látið heillast af einkunnarorðum fyrirtækjanna:  Komdu með okkur í ævintýri, vertu hluti af Midgard fjölskyldunni og þú gætir aldrei viljað fara aftur.  Markmiðið er að efla hæfni starfsfólksins með fræðslu og þjálfun.

Hugað að hæfni í ferðaþjónustu

Samtök ferðaþjónustunnar fagna nýútkominni skýrslu um færniþörf á vinnumarkaði en Ísland hefur lengi verið eftirbátur Evrópuríkja þegar kemur að því að leggja mat á hæfni- og menntunarþörf á vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma. Skýrslan var unnin af sérfræðingahópi fulltrúa frá SA, ASÍ, Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun. Sérfræðingahópurinn leggur til að tekið verði upp spáferli um færniþróun á vinnumarkaði hér á landi og að horft verði til reynslu nágrannaþjóða í þeim efnum.

Markmið færnispár

Hver er svo tilgangurinn með færni­spám? Í skýrslunni segir að markmiðið með þeim sé að aðstoða þá sem koma að ákvarðanatöku um menntun og þjálfun, auk lykilhagsmunaaðila á vinnumarkaði, og einstaklinga til að taka upplýstar ákvarðanir um menntun og færni en þannig megi stuðla að betra og skilvirkara atvinnulífi og auka samkeppnishæfni Íslands. Óhætt er að segja að færni (hæfni) sé mikilvægur innviður í efnahagslífinu og ákvarðanir varðandi færni einstaklinga hafi því mikil áhrif á velmegun til framtíðar.

Skýrslan er jafnframt mikilvægt skref í því að opna augu okkar fyrir því að einblína ekki um of á formlega menntun starfsmanna, heldur að menntunin og færnin henti atvinnulífinu og þeim störfum sem eru á vinnumarkaði. Frá hruni hefur sú þróun orðið að vaxandi misræmi er milli menntunar og starfa á vinnumarkaði. Þetta leiðir til þess að einstaklingar ráða sig í störf sem þeir eru annaðhvort of færir í eða störf sem krefjast færni sem þá skortir. Staða háskólamenntaðra á vinnumarkaði hefur versnað undanfarin ár en hér á landi er fjölbreytt framboð af háskólamenntun. Tegund háskólamenntunar er þó ekki endilega í samræmi við þau störf sem verða til á vinnumarkaði hér á landi.

Fjárfestum í hæfni

Gríðarlegur vöxtur hefur orðið í ferðaþjónustu á undandförnum árum en árið 2016 gaf Stjórnstöð ferðamála með aðkomu Samtaka ferðaþjónustunnar út skýrsluna „Fjárfestum í hæfni starfsmanna“ með tillögum um mannafla, hæfni og gæði í ferðaþjónustu. Helstu tillögur skýrslunnar snérust um að menntun og þjálfun í ferðaþjónustu yrði markvissari og miðaði að þörfum ferðaþjónustunnar. Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þrepaskipts starfsnáms í ferðaþjónustu ásamt því að ferðaþjónustan yrði arðsöm atvinnugrein sem nyti virðingar og að eftirsótt yrði að starfa innan hennar. Í skýrslunni er lögð áhersla á að kortleggja betur störf í ferðaþjónustu og að lagt verði mat á hæfniþörf innan ferðaþjónustunnar til næstu ára og áratuga við stefnumótun í atvinnu- og menntamálum.

Ný nálgun með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar

Til að sinna því verkefni var Hæfni­setur ferðaþjónustunnar sett á laggirnar. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni í ferðaþjónustu á Íslandi á forsendum greinarinnar. Setrið er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins.

Starfsemi Hæfnisetursins hefur verið tryggð næstu þrjú árin, en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur rúmlega 50 m.kr. árlega til verkefnisins. Fyrsta starfsár Hæfniseturs ferðaþjónustunnar er afstaðið. Óhætt er að fullyrða að í heildina gangi verkefnið vel og að það veki verðskuldaða athygli fyrir nýja nálgun í þessari ört vaxandi atvinnugrein og að hugsanlega geti það orðið öðrum atvinnugreinum til eftirbreytni, m.a. til eflingar á þrepaskiptu starfsnámi í landinu. Hægt er að kynna sér starfsemi Hæfnisetursins nánar á vefsíðunni hæfni.is.

Höfundur er fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og formaður stýrihóps Hæfni­seturs ferðaþjónustunnar

Þjálfun og fræðsla fyrir starfsfólk Avis og Budget

Avis og Budget á Íslandi, Mímir og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hafa undirritað samning um tilraunaverkefni um fræðslu og þjálfun starfsmanna. Markmið þess er að efla gæði og færni í ferðaþjónustu hér á landi.

Avis og Budget bílaleigur eru þekkt alþjóðleg vörumerki og hafa fjölda leigustöðva um land allt sem þýðir að viðskiptavinir geta auðveldlega fengið bíl á einum stað og skilað honum á öðrum. Hafa þær vaxið ört undanfarin ár og eru starfsmenn rúmlega 200.

Á myndinni eru Inga Jóna Þórisdóttir frá Mími, Sigríður Björnsdóttir mannauðstjóri Avis og Budget á Íslandi og Haukur Harðarson verkefnastjóri hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar.

Fræðsla og þjálfun á Airport Hótel Aurora Star

Airport Hótel Aurora Star er þriggja stjörnu hótel á Keflavíkurflugvelli, aðeins 100 metra frá flugstöðinni.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hafa skrifað undir samning við hótelið um fræðslu og þjálfun starfsmanna

Hótelið er tilvalið fyrir einstaklinga og hópa sem eru á leiðinni erlendis og vilja gista nóttina fyrir brottför eða við komu á flugvellinum.  Lögð er áhersla á að bjóða upp á persónulegt og þægilegt andrúmsloft og allt gert til að láta gestunum líða sem best.

Á hótelinu er veitingarstaðurinn Aura sem býður gestum upp á ljúffengan kvöldverð. Starfsmenn hótelsins eru  á bilinu 25 til 30 manns og eru 75% þeirra af erlendum uppruna.

Í nágrenni Airport Hotel Aurora eru margar af fallegustu náttúruperlum og ferðamannastöðum Ísland, t.d Bláa Lónið, Víkingaheimar, Saltfisksetrið í Grindavík og Gunnuhver.

 

Á myndinni eru Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Aneta M. Scislowicz hótelstjóri og Smári Þorbjörnsson verkefnastjóri á fyrirtækjasviði hjá MSS

Ársskýrsla Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Ársskýrsla Hæfniseturs ferðaþjónustunnar fyrir árið 2017 er komin út. Fyrsta starfsárið er afstaðið og á heildina litið gengur verkefnið vel og það vekur verðskuldaða athygli fyrir nýja nálgun fyrir atvinnugrein sem er í örum vexti.

Smelltu hér til að nálgast ársskýrsluna.

Eyja Guldsmeden hótel í samstarfi um fræðslu og þjálfun

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og  Mímir símenntun hafa gert samning við Eyja Guldsmeden hótel um greiningu fræðsluþarfa hjá þeim tæplega 30 starfsmönnum sem þar starfa. Verkefnið er tilraunaverkefni sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stendur að og er þriðja verkefnið sem fer af stað í Reykjavík.

 

Eyja Guldsmeden hótel í Brautarholti 10 – 14 er 65 herbergja hótel í eigu hjónanna Lindu Jóhannsdóttur og Ellerts Finnbogasonar.  Hótelið er rekið í samstarfi við dönsku hótelkeðjuna Guldsmeden hotels og starfar undir hennar nafni, en keðjan á og rekur hótel víða um heim.

 

Í anda Guldsmeden Hotels hefur Eyja hótel sjálfbærni og vistvernd að leiðarljósi. Spornað er gegn hvers kyns sóun og einblínt á að lágmarka matarsóun, endurnýta og endurvinna eins og kostur er.  Mikið er lagt uppúr persónulegri þjónustu og upplifun gesta.

 

Á myndinni er Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Inga Jóna Þórisdóttir frá Mímir og Linda Jóhannsdóttir frá Eyja Guldsmeden hótel.

 

Kynning á Þjálfun í gestrisni

Kynning á námsefninu þjálfun í gestrisni var haldin í Húsi atvinnulífsins þann 15. maí. Fræðsluefnið þjálfun í gestrisni er ætlað til þjálfunar og fræðslu á vinnustað. Efnið inniheldur fjölbreyttar sögur af atburðarás sem hefur átt sér stað við ákveðnar ástæður og skiptist í fjóra flokka; móttaka og aðbúnaður, veitingar, þrif og umgengni og bílaleiga.

Fræðsluefnið er nú aðgengilegt á íslensku, pólsku og ensku á heimasíðu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar hæfni.is og er öllum opið til afnota.  Mikil ánægja var meðal þátttakanda með að nú sé hægt að nálgast án endurgjald fræðsluefni fyrir starfsfólk í ferðaþjónustunni. Nálgast má fræðsluefnið hér.

Fræðsla í fyrirtækjum á ensku, íslensku og pólsku

Kynningarfundur Hæfniseturs ferðaþjónustunnar á Þjálfun í gestrisni verður þriðjudaginn 15. maí, kl. 14:00 – 15:00 í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Allir velkomnir. Skráning hér
Þjálfun í gestrisni er efni ætlað til þjálfunar og fræðslu á vinnustað. Fræðsluefnið byggir á raundæmum en það eru fjölbreyttar sögur af atburðarás sem átt hefur sér stað við ákveðnar aðstæður. Efnið skiptist í fjóra flokka: Móttaka og aðbúnaður, veitingar, þrif og umgengni og bílaleiga. Í hverjum starfaflokki eru tíu raundæmi og verkefni. Sjá dagskrá kynningarfundar hér