Bjórböðin hljóta nýsköpunarverðlauna SAF 2018

Bjórböðin á Árskógssandi hljóta nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2018. Eliza Reid, forsetafrú, afhenti Bjórböðunum verðlaunin á 20 ára afmæli Samtaka ferðaþjónustunnar sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica laugardagskvöldið 10. nóvember.

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í fimmtánda sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samtakanna en þetta árið bárust 33 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar. Dómnefndina skipuðu auk Bjarnheiðar þau Andri Kristinsson, forstjóri og stofnandi Travelade og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Nýsköpun í formi upplifunar

Sem fyrr endurspegla tilnefningarnar til nýsköpunarverðlauna SAF mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma samþykkir því að handhafi verðlaunanna í ár séu Bjórböðin ehf.

Bjórböðin voru opnuð í júní 2017 og vöktu þegar mikla athygli bæði hérlendis sem erlendis enda eru slík böð ekki að finna hvar sem er í heiminum. Fyrirtækið kom því ekki aðeins nýtt inn á markaðinn, heldur kom það inn með glænýja upplifun þar sem vellíðan og slökun gegnir lykilhlutverki á nýstárlegan hátt.

Bjórböðin hafa skapað sér ákveðna sérstöðu í ferðaþjónustu og ferðaskrifstofur verið fljótar að taka við sér með því að bjóða upp á ferðir þar sem viðkoma í böðunum er innifalin. Bjórböðin eru því þegar orðin mikilvægur segull fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og styrkja markaðssetningu áfangastaðarins allt árið um kring.

Bjórböðin voru útnefnd Sproti ársins á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi haustið 2017.

Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur bruggverksmiðjunnar Kalda á Árskógssandi í Eyjafirði, stofnuðu fyrirtækið Bjórböðin ehf. árið 2015 ásamt syni þeirra og tengdadóttur. Í bjórböðunum er ger úr bjórbrugginu nýtt sem annars hefði verið hent. Bjórböðin eru lýsandi dæmi um frjóan frumkvöðla anda sem skilar sér í áhugaverðri ferðavöru og atvinnuskapandi starfsemi allt árið um kring.

Bjórböðin ehf. eru því verðskuldaðir handhafar nýsköpunarverðlauna SAF árið 2018.

Verðlaunin mikil viðurkenning

„Við hjá Bjórböðunum erum ótrúlega þakklát og stolt að hafa verið veitt þessa flotta viðurkenning. Þegar við fórum af stað í þetta verkefni höfðum við mikla trú á því að við gætum skapað nýja og ógleymanlega upplifun í ferðaþjónustu. Viðbrögðin frá gestum hafa verið gríðarlega góð og eru því þessi verðlaun mikil viðurkenning af okkar starfi og þökkum við kærlega fyrir okkur,“ segja þau Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur Bjórbaðanna.

Vilja gera góðan vinnustað betri með markvissri þjálfun og fræðslu til starfsfólks

Hótel Víking og Fjörukráin eru staðsett í miðbæ Hafnarfjaðar og er lítið persónulegt fyrirtæki í hótel – og veitingarekstri. Fyrirtækið hefur verið rekið af Jóhannesi Viðari Bjarnasyni í 28. ár eða síðan 10.  maí 1990.  Á hótelinu eru 55 herbergi.

Fjörukráin er landsþekkt fyrir sínar Víkingaveislur og þykir skara fram úr.  Fjaran/Valhöll er opið fyrir matargesti alla daga. Húsið sem hýsir veitingarstaðinn var byggt 1841 og er næstelsta hús Hafnarfjarðar. Eigendur og starfsfólk eru stolt af því að þjóna gestum á þeirra víkinga hátt og vilja gera enn betur og hafa því hafið samstarf um fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólk sitt í samstarfi við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Gerum betur ehf.

Lagt af stað í metnaðarfullt fræðslustarf þar sem áherslan verður á sérsniðna þjálfun og fræðslu

Hótel Selfoss hefur undirritað samstarfssamning um þjálfun og fræðslu við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunet Suðurlands. Verkefnastjóri í verkefninu verður Dýrfinna Sigurjónsdóttir og mun hún aðstoða stjórnendur við að koma á markvissri þjálfun og fræðslu fyrir starfsmenn.

Hótel Selfoss er glæsilegt fjögurra stjörnu hótel staðsett miðsvæðis á Selfossi. Hótelið býður upp á 139 glæsileg herbergi en árið 2016 voru fjörutíu ný herbergi tekin í notkun. Á hótelinu starfa um 100 manns.

Á Hótelinu er Riverside restaurant þar er borið fram morgunverðarhlaðborð fyrir gestina. Á veitingastaðnum er lögð rík áhersla á að bjóða uppá ferskan og bragðgóðan mat, unninn úr hráefnum úr héraðinu. Á veitingastaðnum er bar með setustofu þar sem notalegt er að sitja og njóta meðan eldurinn snarkar í arninum.

Riverside Spa á Hótel Selfossi er einstök heilsulind að evrópskri fyrirmynd þar sem ljúft er að slaka á, og endurnærast á líkama og sál. Riverside Spa er í hlýlegu og notalegu umhverfi þar sem vísað er til íslenskrar náttúru í allri hönnun. Eldur, Ís, vatn, gufa og norðurljós er fléttað inn í hönnun baðstofunnar.

Aukin verðmætasköpun með fræðslu og þjálfun

Hótel Skaftafell og söluskálinn Freysnesi er fjölskyldurekið fyrirtæki.  Hótel Skaftafell sem Anna María Ragnarsdóttir stýrir ásamt fjölskyldu sinni er staðsett í einni af náttúruperlum Íslands og er því fullkomin staður til að gista á ef maður vill kanna stórkostlega náttúru.

Hótelið býður upp á 63 herbergi ásamt veitingastað og bar.  Í söluskálanum er veitingastaður, verslun og bensínafgreiðsla. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 50 manns.

Eigendur eru stoltir af því að geta boðið gestum sínum góða þjónustu og notalegan stað til að dvelja á. Nýlega var undirritað samkomulag við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunet Suðurlands um fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn. Í slíku samstarfi er tækifæri til að gera góða hluti betri.

Á myndinni er Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Margrét Gauja Magnúsdóttir frá Hótel Skaftafelli, Sædís Ösp Valdimarsdóttir frá Fræðsluneti Suðurlands og Anna María Ragnarsdóttir frá Hótel Skaftafelli

Aukin hæfni í ferðaþjónustu, betri upplifun og afkoma

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Stjórnstöð ferðamála og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið (ANR) hafa á síðustu árum gert átak í að styðja ferðaþjónustuna til aukinna gæða. Þar sem ferðaþjónustan snýst að stærstum hluta um þjónustu og mannleg samskipti þá skiptir hæfni starfsmanna í greininni meginmáli. Á síðasta ári var gengið frá stofnun svokallaðs Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem er samvinnuverkefni ofangreindra aðila og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins og stofnað af þeim. ANR fjármagnar verkefnið næstu þrjú árin.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er sérfræðisetur sem aðstoðar fræðsluaðila og fyrirtæki við að koma á fræðslu og þjálfun í fyrirtækjum ferðaþjónustunnar. Hæfnisetrið stendur nú fyrir tilraunaverkefni í samstarfi við nokkra fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu um að markaðssetja og koma á fræðslu í fyrirtækjum eins og gerð er grein fyrir á vefsíðu setursins, hæfni.is

Fræðsla löguð að þörfum og forsendum fyrirtækja

Nálgun Hæfnisetursins byggir á því að rétt fræðsla og þjálfun er fjárfesting sem margborgar sig eins og erlendar rannsóknir sýna. Breskar athuganir sýna að gæði þjónustu og framleiðni aukast verulega með fjárfestingu í réttri fræðslu og að sama skapi minnkar starfsmannavelta, rýrnun og fjarvera umtalsvert sem og kvartanir viðskiptavina. Þannig hefur verið sýnt fram á að fyrirtæki hafa verulegan ávinning af því að leggja tíma og kostnað í rétta fræðslu og þjálfun sem löguð er að þörfum fyrirtækisins.

Miklu máli skiptir því að fræðslan sé aðlöguð að hverju fyrirtæki og þar skiptir samtal fræðsluaðila við stjórnendur og lykilstarfsmenn höfuðmáli. Fræðslan, innihald hennar og nálgun, er því ætíð á forsendum fyrirtækjanna og á sér yfirleitt stað inni í fyrirtækjunum enda sýna kannanir að 80% fyrirtækja í ferðaþjónustu kjósa helst slíkt fræðslufyrirkomulag.

Hæfnisetrið vinnur þétt með fræðsluaðilum í að markaðssetja og koma á fræðslu. Sérfræðingar setursins leggja einnig til ýmis tæki til aðstoðar fyrirtækjunum t.d. námsefni sem er aðlagað þjálfun í fyrirtækjunum og ýmsa mælikvarða til að meta árangur fræðslunnar á rekstrarþætti fyrirtækja í ferðaþjónustu. Suma mælikvarða má rekja beint til fræðslu, aðrir gefa vísbendingar. Samanlagt gefa þessir þættir nokkuð skýra mynd af árangri fræðslunnar og jákvæð áhrif hennar á tekjustreymi fyrirtækisins.

Það skiptir líka miklu máli að greinin sjálf haldi merkjum fræðslu- og menntunar vel á lofti. Mikilvægt er að stærri fyrirtæki í greininni, sem mörg hver eru þekkt fyrir öflugt fræðslustarf, deili með sér þekkingu á árangursríkri fræðslu. Það hjálpar smærri fyrirtækjum í greininni sem kæmi heildarhagsmunum allra til góða.

Aukið fé til starfsmenntunar eykur hæfni fyrirtækja

Í skýrslu Stjórnstöðvar ferðamála, Fjárfestum í hæfni í ferðaþjónustu (2016), kom greinilega fram í könnun meðal stjórnenda í greininni að skýra þyrfti mun betur hvaða valkostir standa starfsmönnum til boða í formlegri menntun í ferðaþjónustu. Hæfnisetrið hefur því einnig unnið markvisst að því verkefni í samvinnu við formlega skólakerfið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, SAF og ýmsa aðra aðila vinnumarkaðarins. Kortlagðar hafa leiðir innan kerfisins og ekki síst, hvaða eyður geta verið til staðar. Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa bent á að þörf sé á starfsfólki með verklega færni því ferðaþjónustan sé fyrst og síðast verkleg grein. Þörf sé á skýrum leiðum og þrepaskiptu starfsnámi þar sem hvert þrep í námi tilgreini tiltekna færni í viðkomandi fagi. Þessi vinna er í fullum gangi en gengur vel og góður samhljómur er milli aðila í þessu samtali. Nauðsynlegt er að stjórnvöld viðurkenni mikilvægi starfsnáms, bæði formlegs náms og verkefna eins og Hæfniseturs, og verji auknu fé til þeirra til að stuðla að aukinni færni, gæðum og betri afkomu fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu til framtíðar.

Rétt fræðsla leiðir til hæfni og hæfni er afl, í ferðaþjónustu sem öðrum atvinnugreinum. Við þurfum fræðslu núna í greininni og Hæfnisetrið mun leggja sitt af mörkum til auðvelda ferðaþjónustunni þá leið.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Samstarfsverkefni um fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn á Smyrlabjörgum

Hótel Smyrlabjörg hafa skrifað undir samstarfssamning við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunet Suðurlands um þjálfun og fræðslu fyrir starfsfólk hótelsins.  Á hótelinu starfa um 30 manns þegar mest er að gera en getur farið yfir vetrarmánuðina niður í 17 manns.

Hótel Smyrlabjörg er notalegt fjölskyldurekið hótel í Suðursveitinni. Hótelið er  með vel búnum 68 herbergjum ásamt veitingastað sem opin er alla daga frá klukkan 12.00 til 21.00. Góð aðstaða er fyrir fatlaða á hótelinu. Hótelið er staðsett við þjóðveg 1, rétt austan við Jökulárslón. Á Smyrlabjörgum er jafnframt hefðbundin búskapur með kindur, hesta, naut, hunda, endur og hænur.

Á myndinn eru Laufey Helgadóttir og Heiða Vilborg Sigurbjörnsdóttir frá Smyrlabjörgum ásamt Sædísi Ösp Valdimarsdóttur frá Fræðsluneti Suðurlands

Mikill metnaður lagður í framúrskarandi þjónustu og góða upplifun gesta

Hótel Grímsborgir er fyrsta flokks gisti og veitingastaður á Suðurlandi nálægt nokkrum af vinsælustu náttúruperlum Íslands. Hótelið er vinsælt meðal ferðamanna alls staðar að en 98% gesta eru erlendir ferðamenn. Á hótelinu eru sextán hús og hótelið býður upp á glæsilega gistingu fyrir allt að 240 gesti í Superior herbergjum, Junior svítum, Svítum, íbúðum með verönd eða svölum og heitum pottum. Hótelið býður upp á fyrsta flokks veitingastað og er mikið notað fyrir viðburði eins og árshátíðir, brúðkaup og fundi af öllu tagi.

Á hótelinu starfa á milli 15 til 35 manns eftir árstíðum sem vilja veita gestum sínum fyrsta flokks þjónustu sem þau geta verið stolt af. Þess vegna m.a. hefur verið tekin sú ákvörðun að fara í samstarf við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar um frekari þjálfun og fræðslu til starfsmanna. Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur mun hafa umsjón með þarfagreiningu og námskeiðahaldi.

Á myndin eru María Brá Finnsdóttir, hótelstjóri, Ólafur Laufdal, eigandi, Margrét Reynisdóttir frá Gerum betur, Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Benedikt Hreinsson, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Hótel Grímsborgum

Nýsköpunarverðlaun SAF 2018

– óskað eftir tilnefningum til og með 2. nóvember

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda á ári hverju nýsköpunarverðlaun samtakanna fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Kveðið er á um að heimilt sé að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að 300.000 krónum fyrir verkefni sem stjórn sjóðsins telur að skari fram úr hverju sinni.

Verður þetta í 15. skipti sem nýsköpunarverðlaun SAF verða afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:

 • 2017 – Friðheimar
 • 2016 – Óbyggðasetur Íslands
 • 2015 – Into The Glacier
 • 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
 • 2013 – Saga Travel
 • 2012 – Pink Iceland
 • 2011 – KEX hostel
 • 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
 • 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
 • 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
 • 2007 – Norðursigling – Húsavík
 • 2006 – Landnámssetur Íslands
 • 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
 • 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan

Eru félagsmenn vinsamlega hvattir til að senda tilnefningar ásamt rökstuðningi til skrifstofu SAF til og með 2. nóvember á netfangið saf@saf.is eða með því að senda póst í Borgartún 35, 105 Reykjavík.

Nú er lag – tökum virkan þátt!

Ljósmynd: Frá afhendingu nýsköpunarverðlauna SAF 2017. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og hjónin Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir eigendur Friðheima í Bláskógabyggð.

Hæfnigreiningar í ferðaþjónustu í samstarfi við HÍ

Síðastliðið vor undirritaðu Háskóli Íslands og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins samning um að FA tæki að sér hæfnigreiningar fyrir Hí í tengslum við nám á háskólastigi, fagháskólastigi. Þetta nýja stig getur auðveldað t.d. starfsmönnum í ferðaþjónustu leiðina að meiri formlegri menntun á sviði ferðaþjónustu.

Hæfnigreiningar er tæki til að greina hvaða hæfni þarf til að sinna ákveðnu starfi. Það er jafnframt hægt að nota hæfnigreiningu til að hanna nám og til að raunfærnimeta starfsmenn.

Hæfnigreiningar fara fram í sérstökum greiningarhópum þar sem bæði starfsmenn og stjórnendur í viðkomandi starfi eiga sæti og eru það venjulega um 15-20 manna hópur. Yfir hverju verkefni er síðan stýrihópur sem tekur lokaákvarðanir um hvaða hæfni þarf í tiltekið starf og á hvaða þrepi í íslenska hæfnirammanum starfið raðast.

Samningurinn er um að FA greini alls sex störf fyrir HÍ sem eiga að nýtast í nám á fagháskólastigi en í dag er áætlað að það jafngildi eins árs grunnnámi á háskólastigi. Störfin sem um ræðir fyrir ferðaþjónustuna eru störf í móttöku, leiðsögn, vöruþróun og viðburðastjórnun.

Á myndinn má sjá einn hópinn sem tók þátt í greiningu á starfi deildarstjóra í móttöku. Dakri Husted, aðstoðar hótelstjóri á hótel Örk,  Birgir Guðmundsson, hótelstjóri á Icelandair hótel Marina, Dýrfinna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Fræðaluneti Suðurlands og Lilja Hrund Harðardóttir, hótelstjóri á hótel Laka.

Sérfræðiþekking í umfangsmikilli atvinnugrein

Með samstarfi við fyrirtæki og stofnanir sem starfa á sviði ferðaþjónustu fá nemendur nýjustu þekkinguna úr greininni hverju sinni. Svo dæmi sé tekið hafa viðskiptadeild HR og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fyrir hönd Hæfniseturs í ferðaþjónustu, skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf. Í því felst meðal annars að deildin hafi aðkomu að árangursmælingum á fræðslu og hvaða þýðingu bætt stjórnendafræðsla hefur á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Þekking og hæfni í faglegri stjórnun í ferðaþjónustu er verðmæt í íslensku atvinnulífi enda starfar mikill fjöldi fólks við greinina. Í þessu 14 mánaða stjórnunarnámi njóta nemendur sérfræðiþekkingar hérlendra og erlendra sérfræðinga og öðlast þekkingu og færni í að stýra fyrirtækjum í ferðaþjónustu og nýta sóknarfæri.

Meistaranám í stjórnun í ferðaþjónustu undirbýr nemendur fyrir stjórnunarstörf í fyrirtækjum og skipulagsheildum í ferðaþjónustu hér á landi og erlendis. Námið endurspeglar aukið mikilvægi greinarinnar út um allan heim og þar með eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu á þessu sviði sem nýtist til að stýra rekstri fyrirtækja með samfélagsábyrgð og sjálfbærni að leiðarljósi.