Samstarfsverkefni um fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn á Smyrlabjörgum

Hótel Smyrlabjörg hafa skrifað undir samstarfssamning við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunet Suðurlands um þjálfun og fræðslu fyrir starfsfólk hótelsins.  Á hótelinu starfa um 30 manns þegar mest er að gera en getur farið yfir vetrarmánuðina niður í 17 manns.

Hótel Smyrlabjörg er notalegt fjölskyldurekið hótel í Suðursveitinni. Hótelið er  með vel búnum 68 herbergjum ásamt veitingastað sem opin er alla daga frá klukkan 12.00 til 21.00. Góð aðstaða er fyrir fatlaða á hótelinu. Hótelið er staðsett við þjóðveg 1, rétt austan við Jökulárslón. Á Smyrlabjörgum er jafnframt hefðbundin búskapur með kindur, hesta, naut, hunda, endur og hænur.

Á myndinn eru Laufey Helgadóttir og Heiða Vilborg Sigurbjörnsdóttir frá Smyrlabjörgum ásamt Sædísi Ösp Valdimarsdóttur frá Fræðsluneti Suðurlands

Mikill metnaður lagður í framúrskarandi þjónustu og góða upplifun gesta

Hótel Grímsborgir er fyrsta flokks gisti og veitingastaður á Suðurlandi nálægt nokkrum af vinsælustu náttúruperlum Íslands. Hótelið er vinsælt meðal ferðamanna alls staðar að en 98% gesta eru erlendir ferðamenn. Á hótelinu eru sextán hús og hótelið býður upp á glæsilega gistingu fyrir allt að 240 gesti í Superior herbergjum, Junior svítum, Svítum, íbúðum með verönd eða svölum og heitum pottum. Hótelið býður upp á fyrsta flokks veitingastað og er mikið notað fyrir viðburði eins og árshátíðir, brúðkaup og fundi af öllu tagi.

Á hótelinu starfa á milli 15 til 35 manns eftir árstíðum sem vilja veita gestum sínum fyrsta flokks þjónustu sem þau geta verið stolt af. Þess vegna m.a. hefur verið tekin sú ákvörðun að fara í samstarf við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar um frekari þjálfun og fræðslu til starfsmanna. Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur mun hafa umsjón með þarfagreiningu og námskeiðahaldi.

Á myndin eru María Brá Finnsdóttir, hótelstjóri, Ólafur Laufdal, eigandi, Margrét Reynisdóttir frá Gerum betur, Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Benedikt Hreinsson, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Hótel Grímsborgum

Nýsköpunarverðlaun SAF 2018

– óskað eftir tilnefningum til og með 2. nóvember

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda á ári hverju nýsköpunarverðlaun samtakanna fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Kveðið er á um að heimilt sé að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að 300.000 krónum fyrir verkefni sem stjórn sjóðsins telur að skari fram úr hverju sinni.

Verður þetta í 15. skipti sem nýsköpunarverðlaun SAF verða afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:

 • 2017 – Friðheimar
 • 2016 – Óbyggðasetur Íslands
 • 2015 – Into The Glacier
 • 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
 • 2013 – Saga Travel
 • 2012 – Pink Iceland
 • 2011 – KEX hostel
 • 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
 • 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
 • 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
 • 2007 – Norðursigling – Húsavík
 • 2006 – Landnámssetur Íslands
 • 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
 • 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan

Eru félagsmenn vinsamlega hvattir til að senda tilnefningar ásamt rökstuðningi til skrifstofu SAF til og með 2. nóvember á netfangið saf@saf.is eða með því að senda póst í Borgartún 35, 105 Reykjavík.

Nú er lag – tökum virkan þátt!

Ljósmynd: Frá afhendingu nýsköpunarverðlauna SAF 2017. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og hjónin Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir eigendur Friðheima í Bláskógabyggð.

Hæfnigreiningar í ferðaþjónustu í samstarfi við HÍ

Síðastliðið vor undirritaðu Háskóli Íslands og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins samning um að FA tæki að sér hæfnigreiningar fyrir Hí í tengslum við nám á háskólastigi, fagháskólastigi. Þetta nýja stig getur auðveldað t.d. starfsmönnum í ferðaþjónustu leiðina að meiri formlegri menntun á sviði ferðaþjónustu.

Hæfnigreiningar er tæki til að greina hvaða hæfni þarf til að sinna ákveðnu starfi. Það er jafnframt hægt að nota hæfnigreiningu til að hanna nám og til að raunfærnimeta starfsmenn.

Hæfnigreiningar fara fram í sérstökum greiningarhópum þar sem bæði starfsmenn og stjórnendur í viðkomandi starfi eiga sæti og eru það venjulega um 15-20 manna hópur. Yfir hverju verkefni er síðan stýrihópur sem tekur lokaákvarðanir um hvaða hæfni þarf í tiltekið starf og á hvaða þrepi í íslenska hæfnirammanum starfið raðast.

Samningurinn er um að FA greini alls sex störf fyrir HÍ sem eiga að nýtast í nám á fagháskólastigi en í dag er áætlað að það jafngildi eins árs grunnnámi á háskólastigi. Störfin sem um ræðir fyrir ferðaþjónustuna eru störf í móttöku, leiðsögn, vöruþróun og viðburðastjórnun.

Á myndinn má sjá einn hópinn sem tók þátt í greiningu á starfi deildarstjóra í móttöku. Dakri Husted, aðstoðar hótelstjóri á hótel Örk,  Birgir Guðmundsson, hótelstjóri á Icelandair hótel Marina, Dýrfinna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Fræðaluneti Suðurlands og Lilja Hrund Harðardóttir, hótelstjóri á hótel Laka.

Sérfræðiþekking í umfangsmikilli atvinnugrein

Með samstarfi við fyrirtæki og stofnanir sem starfa á sviði ferðaþjónustu fá nemendur nýjustu þekkinguna úr greininni hverju sinni. Svo dæmi sé tekið hafa viðskiptadeild HR og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fyrir hönd Hæfniseturs í ferðaþjónustu, skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf. Í því felst meðal annars að deildin hafi aðkomu að árangursmælingum á fræðslu og hvaða þýðingu bætt stjórnendafræðsla hefur á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Þekking og hæfni í faglegri stjórnun í ferðaþjónustu er verðmæt í íslensku atvinnulífi enda starfar mikill fjöldi fólks við greinina. Í þessu 14 mánaða stjórnunarnámi njóta nemendur sérfræðiþekkingar hérlendra og erlendra sérfræðinga og öðlast þekkingu og færni í að stýra fyrirtækjum í ferðaþjónustu og nýta sóknarfæri.

Meistaranám í stjórnun í ferðaþjónustu undirbýr nemendur fyrir stjórnunarstörf í fyrirtækjum og skipulagsheildum í ferðaþjónustu hér á landi og erlendis. Námið endurspeglar aukið mikilvægi greinarinnar út um allan heim og þar með eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu á þessu sviði sem nýtist til að stýra rekstri fyrirtækja með samfélagsábyrgð og sjálfbærni að leiðarljósi.

Námsheimsókn til Skotlands

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fékk Erasmus+ styrk til þess að fara í tvær námsheimsóknir á árinu 2018. Á vormisseri var haldið til Svíþjóðar og Noregs til þess að kynnast skipulagi og aðferðum við raunfærnimat fyrir hæfniviðmið starfa (job standards)  og mótun hæfnistefnu.

Dagana 1. – 5. október heimsótti hópur starfsfólks ýmsa aðila í Skotlandi sem koma að fræðslu og þjálfun í ferðaþjónustu. Í ferðinni voru fjórir starfsmenn Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem FA vistar og auk þess slógust utanaðkomandi aðilar með í för: fulltrúar ráðuneyta og atvinnulífsins í stýrihópi Hæfnisetursins og fulltrúar símenntunarmiðstöðva sem taka þátt í tilraunverkefnum með Hæfnisetrinu. Hópurinn heimsótti meðal annars Tennents Training Academy og Apex hótel í Edinborg til þess að fræðast um samstarf atvinnulífsins og menntayfirvalda um menntun og þjálfun í hótel- og veitingageiranum og um samtök ferðaþjónustunnar á Skotlandi. Þá voru tveir skólar sem tilheyra  University of the Highlands and Islands heimsóttir, annarsvegar hótel- og veitingadeildin í Perth College og hinsvegar rannsóknasetrið við West Highland College. Þátttakendur eru sammála um að þeir hafa fengið nýjar hugmyndir um nálgun og framkvæmd fræðslu og þjálfun og síðast en ekki síst um tækifæri til samstarfs fræðsluaðila og atvinnulífs.

 

Trúir þú á álfasögur?

Hótel Klettur er glæsilegt hótel, steinsnar frá miðbæ Reykjavíkur. Á hótelinu eru 166 herbergi.  Starfsfólk er rétt rúmlega 30 og þar af er stærsti hlutinn af erlendu bergi brotið.

Skrifað hefur verið undir samstarfssamning við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Gerum betur ehf. um greiningu, fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólk.

Nafn hótelsins er dregið af kletti sem hefur fengið að njóta sín á fyrstu hæð hótelsins og springur þar út í gegnum vegginn. Allt útlit og innviðir hótelsins fá innblástur frá íslenskri náttúru og þá sérstaklega íslenskum bergtegundum.

Þó svo að það sé ekki vitað með vissu er auðvelt að ímynda sér að kletturinn hafi fengið að halda sér á fyrstu hæðinni til þess að raska ekki ró álfanna. Kletturinn við hlið hótelsins væri þá inngangur í bú álfanna.

Á Myndini er Margrét Reynisdóttir frá Gerum betur ehf. Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Kristján Jóhann Kristjánsson aðstoðarhótelstjóri