Bus4u Iceland á leið í metnaðarfulla vegferð fræðslu og þjálfunar

Á dögunum skrifuðu Bus4u Iceland, MSS (Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum) og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar undir þríhliðasamning með það að markmiði að koma á markvissri fræðslu sem styður við hæfniuppbyggingu innan fyrirtækisins. Í því felst að greina fræðsluþarfir, gera fræðsluáætlun, fylgja henni eftir og meta árangurinn.

Starfsemi Bus4u Iceland hófst árið 2005 og þar er um 30 starfsmenn sem allir hafa fjölbreytta reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu.

Bus4u Iceland sé meðal annars um akstur almenningssamgangna í Reykjanesbæ og til Grindavíkur ásamt því að sinna skóla- og leikskólaakstri sem þau leggja mikinn metnað í að sinna vel. Þá sjá þau um akstur með flugfarþega og áhafnir þeirra sem og akstur innan öryggissvæðis flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Jafnframt eru í boði ýmiskonar afþreyingarferðir ásamt skipulögðum ferðum fyrir hópa.

Fyrirtækið leggur áherslu á gæði í þjónustu og að skapa starfsumhverfi sem gerir starfsmönnum kleift að vaxa og dafna í starfi.

Bus4u Iceland vill veita framúrskarandi þjónustu og að starfsmenn þeirra séu ánægðir í starfi. Með því að fræða og þjálfa starfmenn telur Bus4u Iceland að hægt verði að ná þessum markmiðum og það verði fyrirtækinu, starfsmönnum og samfélaginu til góðs.

 

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Gerum betur halda á vit ævintýra!

Midgard adventure  og Midgard Base Camp hafa hafið samstarf um fræðslu og þjálfun við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Gerum betur.

Midgard adventure  og Midgard Base Camp eru fjölskyldufyrirtæki á Suðurlandi sem bjóða upp á ævintýraferðir, gistingu og reka jafnframt veitingastað og bar. Fyrirtækin eru á Hvolsvelli í hjarta Suðurlands nærri mörgum náttúruperlum Íslands eins og Þórsmörk, Landmannalaugum, svörtum ströndum og fallegum fossum.

Starfsmenn eru um 30 í báðum fyrirtækjunum og flestir hafa alist upp á Hvolsvelli eða á nærliggjandi bæjum og þeir elska að sýna gestum alla fallegu staðina í næsta nágrenni.  Ævintýraferðirnar geta verið frá einum degi upp í margra daga ferðir þar sem farið er meðal annars í jeppaferðir, snjósleðaferðir, fjallahjólaferðir, gönguferðir í óbyggðum eða ísklifur.

Þau bjóða líka upp á ýmsa valkosti fyrir fyrirtæki þar sem tvinnað er saman ævintýri með Midgard Adventure við mat og drykk hjá Midgard Base Camp.

Segja má að Hæfnisetrið og Gerum betur hafi látið heillast af einkunnarorðum fyrirtækjanna:  Komdu með okkur í ævintýri, vertu hluti af Midgard fjölskyldunni og þú gætir aldrei viljað fara aftur.  Markmiðið er að efla hæfni starfsfólksins með fræðslu og þjálfun.