Fræðsla og þjálfun á Airport Hótel Aurora Star

Airport Hótel Aurora Star er þriggja stjörnu hótel á Keflavíkurflugvelli, aðeins 100 metra frá flugstöðinni.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hafa skrifað undir samning við hótelið um fræðslu og þjálfun starfsmanna

Hótelið er tilvalið fyrir einstaklinga og hópa sem eru á leiðinni erlendis og vilja gista nóttina fyrir brottför eða við komu á flugvellinum.  Lögð er áhersla á að bjóða upp á persónulegt og þægilegt andrúmsloft og allt gert til að láta gestunum líða sem best.

Á hótelinu er veitingarstaðurinn Aura sem býður gestum upp á ljúffengan kvöldverð. Starfsmenn hótelsins eru  á bilinu 25 til 30 manns og eru 75% þeirra af erlendum uppruna.

Í nágrenni Airport Hotel Aurora eru margar af fallegustu náttúruperlum og ferðamannastöðum Ísland, t.d Bláa Lónið, Víkingaheimar, Saltfisksetrið í Grindavík og Gunnuhver.

 

Á myndinni eru Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Aneta M. Scislowicz hótelstjóri og Smári Þorbjörnsson verkefnastjóri á fyrirtækjasviði hjá MSS

Ársskýrsla Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Ársskýrsla Hæfniseturs ferðaþjónustunnar fyrir árið 2017 er komin út. Fyrsta starfsárið er afstaðið og á heildina litið gengur verkefnið vel og það vekur verðskuldaða athygli fyrir nýja nálgun fyrir atvinnugrein sem er í örum vexti.

Smelltu hér til að nálgast ársskýrsluna.

Eyja Guldsmeden hótel í samstarfi um fræðslu og þjálfun

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og  Mímir símenntun hafa gert samning við Eyja Guldsmeden hótel um greiningu fræðsluþarfa hjá þeim tæplega 30 starfsmönnum sem þar starfa. Verkefnið er tilraunaverkefni sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stendur að og er þriðja verkefnið sem fer af stað í Reykjavík.

 

Eyja Guldsmeden hótel í Brautarholti 10 – 14 er 65 herbergja hótel í eigu hjónanna Lindu Jóhannsdóttur og Ellerts Finnbogasonar.  Hótelið er rekið í samstarfi við dönsku hótelkeðjuna Guldsmeden hotels og starfar undir hennar nafni, en keðjan á og rekur hótel víða um heim.

 

Í anda Guldsmeden Hotels hefur Eyja hótel sjálfbærni og vistvernd að leiðarljósi. Spornað er gegn hvers kyns sóun og einblínt á að lágmarka matarsóun, endurnýta og endurvinna eins og kostur er.  Mikið er lagt uppúr persónulegri þjónustu og upplifun gesta.

 

Á myndinni er Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Inga Jóna Þórisdóttir frá Mímir og Linda Jóhannsdóttir frá Eyja Guldsmeden hótel.

 

Kynning á Þjálfun í gestrisni

Kynning á námsefninu þjálfun í gestrisni var haldin í Húsi atvinnulífsins þann 15. maí. Fræðsluefnið þjálfun í gestrisni er ætlað til þjálfunar og fræðslu á vinnustað. Efnið inniheldur fjölbreyttar sögur af atburðarás sem hefur átt sér stað við ákveðnar ástæður og skiptist í fjóra flokka; móttaka og aðbúnaður, veitingar, þrif og umgengni og bílaleiga.

Fræðsluefnið er nú aðgengilegt á íslensku, pólsku og ensku á heimasíðu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar hæfni.is og er öllum opið til afnota.  Mikil ánægja var meðal þátttakanda með að nú sé hægt að nálgast án endurgjald fræðsluefni fyrir starfsfólk í ferðaþjónustunni. Nálgast má fræðsluefnið hér.

Fræðsla í fyrirtækjum á ensku, íslensku og pólsku

Kynningarfundur Hæfniseturs ferðaþjónustunnar á Þjálfun í gestrisni verður þriðjudaginn 15. maí, kl. 14:00 – 15:00 í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Allir velkomnir. Skráning hér
Þjálfun í gestrisni er efni ætlað til þjálfunar og fræðslu á vinnustað. Fræðsluefnið byggir á raundæmum en það eru fjölbreyttar sögur af atburðarás sem átt hefur sér stað við ákveðnar aðstæður. Efnið skiptist í fjóra flokka: Móttaka og aðbúnaður, veitingar, þrif og umgengni og bílaleiga. Í hverjum starfaflokki eru tíu raundæmi og verkefni. Sjá dagskrá kynningarfundar hér

Ferðaþjónustufyrirtæki á Ásbrú í samstarfi um fræðslu

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og fjögur ferðaþjónustufyrirtæki á Ásbrú undirrituðu samning um greiningu fræðsluþarfa hjá fyrirtækjunum. Verkefnið er fyrsta klasaverkefnið sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stendur að og er ætlað að auka hæfni starfsmanna í fyrirtækjunum.
Fyrirtækin sem mynda klasann eru Bed & Breakfast hótel, Base hótel, Eldey hótel og Start hostel. Öll eru þessi fyrirtæki á Ásbrú í nálægð við Keflavíkurflugvöll.
Fyrirtækin eru gæða gististaðir með afslappað andrúmsloft, mikinn metnað og stefna að því að bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu. Þau hafa metnað til að vera í fremstu röð í þeirri stórhuga uppbyggingu sem er á svæðinu. Með því að fjárfesta í hæfni starfsfólks með fræðslu og þjálfun telja fyrirtækin að þau auki gæði, starfsánægju, framleiðni og arðsemi.
Með aukinni samvinnu sjá fyrirtækin tækifæri til að auka hæfni starfsmanna sinna á hagkvæman hátt og deila reynslu í því skyni að bæta enn frekar góða þjónustu sína við ferðamenn.
MSS sér um framkvæmd verkefnisins. Þörfin fyrir þjálfun og fræðslu í fyrirtækjum verður metin og greind og í kjölfarið útbúin fræðsluáætlun eftir þörfum og óskum hvers fyrirtækis og í samráði við stjórnendur og starfsmenn. MSS sér um að koma áætluninni í framkvæmd í nánu samstarfi við fyrirtækin og á forsendum þess.

Á myndinni eru Jónatan Ægir Guðmundsson frá Base hótel, Freyja Árnadóttir frá Bed & Breakfast hótel, Margrét Jóna Jónsdóttir frá Start hostel og Sunna Pétursdóttir frá Eldey hótel.