Hæfnisetur ferðaþjónustunnar tók þátt í samhristingi Ferðamálasamtaka Snæfellsness

Samhristingur Ferðamálasamtaka Snæfellsness var haldinn á Arnarstapa þriðjudaginn 6. mars s.l.

Þeir sem gátu gefið sér tíma fyrir sögufylgd gengu frá bílastæðinu við höfnina, að útsýnispalli sem þar hefur verið komið fyrir, og eftir ströndinni (sem hefur verið friðland frá 1977), að styttunni af Bárði Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson, fram hjá Eystrigjá, Miðgjá og Músagjá, Gatkletti, Pumpu ofl. stöðum sem allir ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi verða að þekkja. Á eftir var farið að Stapagili, þar sem komið hefur verið upp aðstöðu fyrir steinhögg og útilistaverkagerð.

Kl. 17 voru yfir 30 ferðaþjónustuaðilar á Snæfellsnesi mættir í Samkomuhúsið á Arnarstapa. Fyrst var rætt um sameiginlegt kynningarefni Snæfellinga á Mannamóti, stefnumóti ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni og ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa, sem Markaðsstofur landshlutanna skipuleggja ár hvert. Að þessu sinni voru 18 ferðaþjónustufyrirtæki af Snæfellsnesi með og 14 nýttu sér þetta tilraunaverkefni. Hrafnhildur í Krums, sem útbjó kynningarefnið, sagði frá. Fundarmenn lýstu yfir ánægju með verkefnið og vilja til að halda áfram að þróa sameiginlegt kynningarefni. Við erum öll á Snæfellsnesi og það kom vel út að hafa sameiginlegan bakgrunn og að raða fyrirtækjunum upp landfræðilega.

Fulltrúar fyrirtækjanna kynntu sína þjónustu og dreifðu kynningarefni. Eins voru á Samhristingnum starfsfólk í upplýsingaveitu til ferðamanna á Snæfellsnesi.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes kynnti þau samvinnuverkefni á Snæfellsnesi sem eru í undirbúningi eða fullum gangi núna.

 • Áframhaldandi uppbygging áfangastaða
 • Gestastofa Snæfellsness/Upplýsingamiðstöð Snæfellsness
 • Barnamenningarhátíð verður haldin á Snæfellsnesi á árinu.
 • Unnið er að skiltastefnu, að öll skilti á Snæfellsnesi verði á íslensku og ensku og til séu leiðbeiningar um efnisval/liti og aðra hönnun.
 • Samstarf um matarauð Snæfellsness
 • Árlegur safna og sýningadagur verður haldinn 19. apríl n.k.
 • Árleg fjölmenningarhátíð verður haldin 20. október n.k.
 • Samstarf við þjóðgarðinn Snæfellsjökul
 • Samstarf við Umhverfisvottun Snæfellsness
  • Jarðarstund 24. mars þar sem Snæfellingar eru hvattir til að slökkva ljós í klukkustund og hugsa um umhverfismál
 • Shape er þriggja ára verkefni um sjálfbæra ferðaþjónustu með styrk frá Norðurslóðaáætluninni. Það gengur út á að virkja tengslanet hagsmunaaðila í hverjum svæðisgarði, skilgreina verkefni og vandamál og vinna saman að sjálfbærni og ábyrgri ferðaþjónustu. Kortleggja náttúru og menningararf og deila góðum dæmum.
 • Sagnaseiður og atvinnumannadeildin Sögufylgjur.

Símenntun Vesturlands og Hæfnissetur ferðaþjónustunnar kynntu hvaða þjónustu þau gætu boðið fyrirtækjum.  Símenntun Vesturlands hefur tekið þátt í mörgum samvinnuverkefnum á Snæfellsnesi síðustu misseri og Brynja Mjöll er sérstakur starfsmaður Símenntunar á Snæfellsnesi.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er verkefni til næstu þriggja ára og er markmiðið að auka gæði í ferðaþjónustu á Íslandi. Hæfnisetrið og Símenntun Vesturlands telja að það geti þau gert með því að bjóða fyrirtækjum sérsniðna fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólkið sem hentar hverju fyrirtæki fyrir sig.

Fyrirtækjum á Snæfellsnesi stendur nú til boða að fá aðstoð þeim að kostnaðarlausu við að greina þarfir og koma á markvissri þjálfun starfsmanna.

Góðar umræður urðu um öll þessi mál. Að lokum var unnið að uppfærslu á félagatali Ferðamálasamtaka Snæfellsness og ferðaþjónustuaðilar voru hvattir til að nota #visit Snæfellsnes til að merkja myndir á Instagram.

Næsti Samhristingur verður í rútu frá Snæfellsnes Excursions um Snæfellsnes í apríl eða byrjun maí. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes hjálpar til við skipulagningu og leiðsögn um áfanga og þjónustustaði. Allir sem vilja bjóða heim eru hvattir til að hafa samband (ragnhildur@snaefellsnes.is)

Friðheimar í samstarfi við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunetið á Suðurlandi

Fræðslunetið á Suðurlandi og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hafa gert samning við Friðheima um greiningu fræðsluþarfa hjá fyrirtækinu. Verkefnið er annað tilraunaverkefni sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stendur að og fer af stað á Suðurlandi. Fræðslunetið sér um framkvæmdina og er greiningin kostuð af starfsmenntasjóðum.

Í Friðheimum eru ræktaðir tómatar allan ársins hring og fá gestir innsýn í ræktunina með stuttum og fræðandi fyrirlestri. Í gestastofunni má líka skoða sýningu um ylrækt á Íslandi. Þá er hægt að taka gómsætar minningar með sér heim, því það eru til sölu matarminjagripir á borð við tómatsultu, gúrkusalsa og tómathressi. Veitingarstaðurinn í gróðurhúsinu bíður upp á  einstakrar matarupplifanir, þar sem tómatarnir vaxa allt árið um kring! Tómatsúpa og nýbakað brauð ásamt öðru góðgæti í notalegu umhverfi innan um tómatplönturnar. Í Friðheimum er einnig stunduð hrossarækt og ferðamönnum boðið upp á hestasýningu á fjórtán tungumálum.

 

Ferðaþjónustudagurinn 2018

ÁVÖRP

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar 2014 – 2018

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra

Efnahagsleg fótspor ferðamanna

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins

Sjálfbær ferðaþjónusta – leiðin til framtíðar

Dr. Snjólaug Ólafsdóttir, stofnandi og eigandi Andrýmis ráðgjafar

Fólkið og ferðaþjónustan

Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu

FÓTSPOR FERÐAÞJÓNUSTUNNAR

Spjallborð

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis – og auðlindaráðherra, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Lokaorð

Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands

Fundarstjóri

Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlamaður, sem jafnframt stýrir umræðum

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG

Ævintýraferðaþjónusta á Hornafirði – nýsköpun og menntun

Háskólasetrið og FAS eru í forsvari fyrir tveimur fjölþjólegum verkefnum sem snúast um þróun, nýsköpun og menntun í ævintýraþjónustu. Verkefnin nefnast SAINT – Slow Adventure in Northern Territories, styrkt af Norðurslóaðáætlun Evrópusambandsins og ADVENT – Adventure Tourism in Vocational Education and Training, styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins (Erasmus +)

Í dag 14. mars var haldin ráðstefna þar sem innlendir og erlendir samstarfsaðilar FAS og Rannsóknasetursins í SAINT og ADVENT héldu sameiginlega ráðstefnu á Höfn. Fulltrúar frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar tóku þátt í ráðstefnunni.

SAINT er samstarfsverkefni fjölmargra aðila (háskóla, stofnana, markaðsstofa og ferðaþjónustufyrirtækja) í sjö löndum: Skotlandi, Írlandi, Norður Írlandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Meginmarkmiðið SAINT er að vinna með fyrirtækjum í afþreyingarferðaþjónustu að vöruþróun og markaðssetningu.

Íslenski hluti verkefnisins er unnin í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð ferðamála en með aðaláherslu á ferðaþjónustuaðila á Hornafirði.

ADVENT er samstarfsverkefni framhalds- og háskóla, rannsóknarstofnana og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í afþreyingarferðaþjónustu í Finnlandi, Skotlandi og á Íslandi. Megin markmið þess er að virkja á markvissan hátt þann mannauð, þekkingu og reynslu sem afþreyingarferðaþjónusta býr yfir til eflingar fyrirtækjanna og samfélagsins í heild.

 

 

Flúðasveppir – Farmes bistro fyrstir á Suðurlandi til að skrifa undir samning um tilraunaverkefni

Flúðasveppir – Farmers bistro er fyrsta fyrirtækið í ferðaþjónustu á Suðurlandi til að taka þátt í verkefni á vegum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar um markvissa hæfniuppbyggingu starfsmanna.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar vinnur, á forsendum ferðaþjónustunnar, að því að auka hæfni starfsfólks og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar. Til þess að ná þessu markmiði hóf Hæfnisetrið tilraunaverkefni haustið 2017 sem byggir á því að greina fræðsluþarfir ferðaþjónustufyrirtæja og til að standa fyrir mælanlegri og árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar.
Þann 23. febrúar voru undirritaðir samningar um framkvæmd verkefnisins hjá Flúðasveppum – Farmers bistro sem er blandað matvæla- og ferðaþjónustufyrirtæki. Fræðslunetiði sér um framkvæmd greininga og fræðslu í umboði Hæfnisetursins og starfsmennastjóðsins Landsmenntar sem kostar verkefnið.
Í upphafi verkefnisins eru væntingar fyrirtækisins til fræðslu og fræðsluþarfir starfsmanna greindar. Í kjölfarið er útbúin áætlun um fræðslu og þjálfun. Árangursmælikvarðar eru gangsettir við upphaf fræðslunnar og eru þeir virkir í tólf mánuði eftir að fræðslu er lokið.
Nú þegar er ljóst að fleiri ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi munu taka þátt í tilraunaverkefninu á næstu mánuðum og búast má við meiri og almennari þátttöku ferðaþjónustuaðila fljótlega eftir að árangur verkefnisins verður gerður ljós. Upplýsingar um verkefnið á Suðurlandi veita Eyjólfur Sturlaugsson (eyjolfur@fraedslunet.is) hjá Fræðslunetinu og Valdís Steingrímsdóttir (valdis@frae.is) hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar.