Menntun og færni á vinnumarkaði

Ráðstefna um menntun og færni á vinnumarkaði verður haldin á vegum Vinnumálastofnunar, SA, ASÍ og Hagstofu Íslands  fimmtudaginn 9. nóvember á Hilton Hótel Reykjavík Natura kl. 08:10-10:30.

Hvert stefnir Ísland?

Örar breytingar á tækni, efnahagslífi og samfélaginu gera það að verkum að nauðsynlegt er að vera vel undirbúin og meðvituð um ólíkar sviðsmyndir sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Þannig má efla samspil atvinnulífs og menntunar sem leiðir til þess að verðmætari störf verða til og lífskjör landsmanna batna.

Stór hluti Evrópuríkja stundar greiningu á færni- og mannaflaþörf á vinnumarkaði. Markmiðið er að styðja við stefnumótun í mennta- atvinnu- og vinnumarkaðsmálum ásamt því að veita einstaklingum bestu upplýsingar til að efla menntun sína og færni.

Spár um færni- og mannaflaþörf á vinnumarkaði hafa hingað til ekki verið unnar markvisst á Íslandi. Við erum því eftirbátar nágrannaþjóða þegar kemur að heildarstefnumótun m.t.t. þróunar færni og menntunar á vinnumarkaði. Á ráðstefnunni kynna sérfræðingar aðferðir sem nýttar eru við gerð færnispáa í Bretalandi, Svíþjóð, Írlandi og annars staðar í Evrópu.

Regluleg þjálfun starfsmanna á Hótel Rangá

Hótel Rangá er einn af vinsælustu áningarstöðum gesta víðsvegar að úr heiminum auk þess sem hótelið er þekkt meðal Íslendinga fyrir gæði og þjónustu. Á Hótel Rangá eru 52 herbergi, þar af átta fallegar svítur sem eru hannaðar á listilegan hátt eftir heimsálfunum sjö. Hótelið er reyklaust og opið allt árið.

„Hótel Rangá leggur mikla áherslu á hlýlegt viðmót og persónulega þjónustu. Hótelinu var boðin aðild að keðju lítilla, en hágæða hótela, Small Luxary hotels.  Sú aðild hjálpar okkur til að gera enn betur þar sem við bætum við ströngum gæðaviðmiðum keðjunnar. Það kemur fólk frá Small Luxary hotels keðjunni  sem tekur hótelið út og fylgist með að gæðaviðmiðum þeirra sé fylgt“ segir Friðrik Pálsson, eigandi hótel Rangá

„Á síðustu árum höfum við verið að taka fræðslu og þjálfun fastari tökum. Við fengum á sínum tíma Fræðslustjóra að láni til að koma okkur af stað. Við erum með reglulega þjálfun og við gerum fræðsluáætlun fyrir hvert ár sem verður að vera sveigjanleg því áætlunin þarf að taka mið af bókunarstöðu hótelsins.  Þetta kallar á gott skipulag og eins að við getum kallað á fræðsluaðila með stuttum fyrirvara. Einnig erum við með reglulega eigin fræðslu, þar sem við notum okkar starfsfólk til að þjálfa nýliða.“

„Við viljum að öll fræðsla fari fram á staðnum vegna þess að það er tímafrekt að senda fólk til Reykjavikur. Þar af leiðandi henta ýmiskonar vefnámskeið okkur vel. Það hefur einnig reynst okkur vel að fræðsla og þjálfun fari fram í minni hópum þar sem þátttaka starfsmanna er tryggð með hópavinnu, verkefnum og fyrirlestrum. Námskeið sem Gerum betur var með fyrir okkur skilaði okkur töluvert miklu og starfsfólkið var ánægt.“ segir Harpa Jónsdóttir, gæðastjóri

„Við erum að ná vel utan um staðarþekkingu því það skiptir miklu máli að allt starfsfólk okkar viti hvað er markvert að sjá og upplifa í næsta nágrenni. Við þjálfum okkar fólk í því með því að fara reglulega með þau í skoðunarferðir á vinsælustu ferðamannastaðina í nágrenninu.“ segir Friðrik að lokum.

Vinnustaðanámssjóður

Sjóðurinn veitir styrk til fyrirtækja vegna vinnustaðanáms nema í iðnnámi eða öðru námi á framhaldsskólastigi þar sem vinnustaðanám og starfsþjálfun er skilgreindur hluti námsins.   Styrkurinn er til að stuðla að eflingu vinnustaðanáms og fjölga tækifærum nema til starfsþjálfunar. Markmið sjóðsins er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla.

Sótt er um á heimasíðu Rannís  www.rannis.is   Frestur til að sækja um í Vinnustaðanámssjóð er til 14. nóvember 2017, kl. 16:00.

Samstarf um tilraunakennslu á Fjarkanum

Veitingastaðirnir Kaffi krús, Tryggvaskáli og Yellow eru reknir af sömu aðilum.

Kaffi krús er í senn heimilislegt kaffihús og notalegur veitingastaður í hjarta Selfossbæjar. Í ár eru 25 ár síðan Kaffi krús opnaði en í dag starfa um 35 manns þar.

Tryggvaskáli opnaði 2013 og þar starfa um 20 starfsmenn. Matreiðslumenn Tryggvaskála leggja áherslu á hráefni úr héraði og með virðingu fyrir störfum bænda.

Yellow opnaði fyrir um ári síðan og býður upp á hollan mat sem bæði er hægt að borða á staðnum eða taka með. Þar starfa 10 starfsmenn.

Kaffi krús og Tryggvaskáli voru samstarfsaðilar Fræðslunets Suðurlands í tilraunakeyrslu á Fjarkanum, sem er nám fyrir ferðaþjónustuna og voru 5 starfsmenn frá okkur þátttakendur í náminu sem var 60 stundir segir Tómas Þóroddsson enn af eigendum.  Við tókum einnig á móti þátttakendum frá öðrum þar sem veitt var fagleg leiðsögn frá framreiðslu- og matreiðslumönnum sem þar starfa en hluti námsins var verklegur.

Hægt er að nálgast upplýsingar um Fjarkann hér

Nýsköpunarverðlaun SAF 2017

 

– óskað er eftir tilnefningum til og með 3. nóvember

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda á ári hverju nýsköpunarverðlaun samtakanna fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Kveðið er á um að heimilt sé að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að 300.000 krónum fyrir verkefni sem stjórn sjóðsins telur að skari fram úr hverju sinni. Eru félagsmenn sem aðrir vinsamlega hvattir til að senda tilnefningar ásamt rökstuðningi til skrifstofu SAF til og með 3. nóvember á netfangið saf@saf.is eða með því að senda póst í Borgartún 35, 105 Reykjavík. Nú er lag – tökum virkan þátt!

Mynd: Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela og stjórnarmaður í SAF, stýrði athöfninni og gerði María Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, grein fyrir niðurstöðu dómnefndar. Dómnefndina skipuðu auk Maríu þau Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Reykjavík Excursions og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Þjálfunarefnið “Gestrisni í ferðaþjónustu – raundæmi og verkefni”

Kynningarfundur var haldin 28 september í Húsi atvinnulífsins í samstarfi við SAF, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Stjórnvísi þar sem þær Margrét Reynisdóttir og Sigrún Jóhannesdóttir kynntu þjálfunarefnið fyrir fræðsluaðilum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Þær stöllur fengu styrk úr Fræðslusjóði til að vinna þjálfunarefni fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu.
Þau svið sem tekin eru fyrir í þessu þjálfunarefni eru móttaka ferðamanna, þrif, veitingar og bílaleigur
Þjálfunarefnið byggir á raundæmum úr ferðaþjónustu og hentar fyrir þjálfun á vinnustöðum og er það jafnframt aðgengilegt fyrir starfsþjálfa á vinnustað. Það hentar líka vel sem efni á námskeiðum og er fjölþætt og sveigjanlegt. Það má nota eitt dæmi eða raða nokkrum saman fyrir lengra námskeið og hentar til að flétta saman þjálfun í persónulega hæfni og faglegri hæfni.
Helstu kostir þjálfunar með raundæmum og verkefnum eru að þau brúa bil „sögu“ og veruleika. Starfsmenn vinna saman að lausnum, og fá tækifæri til að ræða eigin reynslu undir yfirskyni sögunnar.
Efnið getur einnig nýst í öðrum þjónustugreinum í atvinnulífinu því auðvelt er að heimfæra það á önnur þjónustustörf.
Verkefnið var þróað með 18 álitsgjöfum þar á meðal, SAF, Mímir símenntun, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Símey símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Vakanum og nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Þau fyrirtæki sem hafa tilraunakeyrt þjálfunarefnið segja að það auki gæði, starfsánægju og hæfni og starfsfólk verði öruggara. Það kemur að góðum notum við mannaráðningar, innanhúsnámskeið, símenntun, íslenskunámskeið og á starfsmannafundum.
Það sem gekk síst er að efnið er eingöngu á íslensku en nú er unnið að þýðingum á ensku og pólsku með styrkjum úr starfsmenntasjóðum
Hægt er að nálgast þjálfunarefnið hjá Gerum betur ehf, gerumbetur@gerumbetur.is s. 899 8264

Fjármögnun Hæfniseturs tryggð næstu 3 árin

Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, undirritaði í dag þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) um að hýsa verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur til rúmlega 50 m.kr. á ári til verkefnisins næstu þrjú árin frá og með 2018. Markmið verkefnisins er að auka gæði og hæfni í ferðaþjónustu, einkum framlínustarfsmanna og millistjórnenda. Í því samhengi verður sérstaklega horft að fræðslu sem aðlöguð er starfsmönnum fyrirtækja í ferðaþjónustu og fer fræðslan fram inni í fyrirtækjunum eins og kostur er.

Verkefnið hófst með sérstöku framlagi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (ANR) í janúar sl. og hefur verið unnið ötullega að verkefninu síðan af hálfu starfsmanna Hæfnisetursins. Fundað hefur verið með fræðsluaðilum, fyrirtækjum og stofnunum og tilraunaverkefni er farið af stað með þátttöku fræðsluaðila sem sjá um framkvæmd fræðslunnar. Verkefnið er unnið á grundvelli skýrslu Stjórnstöðvar ferðamála sem stjórnvöld og Samtök ferðaþjónustunnar ýttu úr vör um hæfni í ferðaþjónustu en skýrslan kom út á síðasta ári. Markmiðið er að auka framleiðni og gæði í ferðaþjónustu sem og starfsánægju og fagmennsku starfsmanna í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það verður gert m.a. með hæfnigreiningum starfa, þróun raunfærnimats og námskeiða, þrepaskiptu starfsnámi, rafrænni fræðslu ásamt fræðslu innan fyrirtækja. Hæfnisetrið býður þessi verkfæri til afnota fyrir fræðsluaðila og fyrirtæki og er markmiðið að ná til sem flestra starfsmanna í ferðaþjónustu. Jafnframt verður lögð áhersla á að mæla árangur fræðslu í t.d. starfsmannaveltu, framlegð o.fl. rekstrarþáttum fyrirtækja.

Aðrir aðstandendur verkefnisins voru að vonum ánægðir:
“Við hjá Fræðslumiðstöðinni erum mjög stolt yfir að okkur skuli vera falið þetta verkefni og finnum jafnframt til mikillar ábyrgðar. Við eigum fullt af verkfærum í fræðslu af þessu tagi fyrir fræðsluaðila og fyrirtæki og erum einnig að þróa ný sem nýtast í verkefnið. Okkar markmið er að þessir peningar skili sér margfalt út í greinina innan fárra ára” sagði Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

„Ör vöxtur í ferðaþjónustu kallar á markvissar og um leið hraðar úrbætur í fræðslumálum. Það er því sérlega ánægjulegt að með samningi þessum sé starfsemi Hæfnisetursins fest í sessi til næstu þriggja ára.“ sagði María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður stýrihóps Hæfnisetursins.

Myndin hér að ofan var tekin við undirritun samnings í morgun, f.v. Sigrún Brynja Einarsdóttir, skrifstofustjóri ferðamálaskrifstofu ANR, Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Þórdís Kolbrún Reykdal Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

TTRAIN námskeið fyrir starfsþjálfa að fara af stað

Háskólinn á Bifröst heldur þjú námskeið fyrir starfsþjálfa í ferðaþjónustu, TTRAIN, á haustönn 2017. Kennslulotur fara fram í Reykjavík.

Starfsþjálfanámið, TTRAIN, snýst um að þróa aðferðir til að mennta einstaklinga innan ferðaþjónustunnar sem sér um þjálfun nýrra starfsmanna innan fyrirtækja sem og endurmenntun þeirra sem fyrir eru. Námið byggir á samevrópsku verkefni sem styrkt var af Erasmus+ menntaáætlun ESB.  Verkefnisstjórn var í höndum Rannsóknaseturs verslunarinnar og tóku Samtök ferðaþjónustunnar og Háskólinn á Bifröst einnig þátt í verkefninu.

Alls hafa á þriðja tug starfsmanna íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja lokið náminu. Kennt er einn dag í viku í þrjár vikur en þjálfunin fer fram í alls sex lotum sem hver um sig er helguð ákveðnum hæfniþáttum.  Unnið er undir handleiðslu kennara og er mikil áhersla á skapandi lausnir. Hver og einn vinnur sjálfstætt að verkefnum á vinnustað sem tengjast þeirra starfssviði.  Handleiðslu kennara lýkur einum til tveimur mánuðum eftir útskrift af námskeiðinu.

Næstu námskeið verða sem hér segir:

  • Október – kennsludagar 4., 11., og 18. október
  • Nóvember – kennsludagar 7., 14., og 21. nóvember

Opið er fyrir umsóknir á heimasíðu skólans. Fullt verð er 115.000 kr., verð fyrir félagsmenn í SAF 97.000 kr.

Nánari upplýsingar veita María Guðmundsdóttir í síma 822 0056 og á netfangið maria (hjá) saf.is og Hulda I. Rafnarsdóttir í síma 433 3133 og á netfangið simenntun (hjá) bifrost.is

Þjálfun skilar sér í hæfara starfsfólki

Hótel Selfoss er staðsett á bökkum Ölfusár, miðsvæðis á Selfossi. Á hótelinu hefur þjálfun starfsmanna ekki verið í reglulegum farvegi en til stendur að fara í þarfagreiningu til að kortleggja þá fræðslu sem þörf er á og í framhaldinu að taka þjálfunarmál fastari tökum.
Á veitingarstaðnum Riverside sem er á hótelinu hefur hins vegar verið nokkuð regluleg þjálfun og leggur Hrefna Katrínardóttir, vaktstjóri metnað sinn í að hafa vel þjálfað starfsfólk í salnum. Þjálfun starfsmanna skilar okkur sannalega hæfara starfsfólki, sérstaklega finnst mér þjálfun sem fast ráðið starfsfólk fær skila sér vel og vonandi tekur sumarstarfsfólkið þekkinguna með sér og getur nýtt sér hana segir Hrefna.
Varðandi skipulag á fræðslu segir Hrefna að það virki best að fara út af vinnustaðnum með fræðsluna og að fá utanaðkomandi fræðsluaðila. Það virkar best að hafa þjálfunina og fræðsluna í stuttum lotum til að einbeiting haldist og mikilvægt að það séu verkefnaskil eða könnun því þá kemur meiri metnaður í starfsfólkið. Starfsfólk sem vinnur við þjónustu í sal þarf að hafa grunnþekkingu á vínum og mat. Slíkt starfsfólk er mjög eftirsótt og hefur Hrefna verið dugleg að nýta sér fræðslu frá byrgjum. Hrefna segir að lokum að hennar starfsfólk sé jákvætt fyrir þjálfun og fræðslu og finnist gaman að hittast utan vinnutíma þó svo tilefnið sér fræðsla.