Er hægt að eldast í ferðaþjónustu?

Vinnueftirlitið stendur fyrir vinnuverndarráðstefnu á Hótel Borgarnesi þann 6. október kl. 13-16. Ráðstefnan ber yfirskriftina „VINNUVERND ALLA ÆVI  – Er hægt að eldast í ferðaþjónustu?“ Á ráðstefnunni verður sjónum beint að mikilvægi vinnuverndar í ferðaþjónustu og áhrifum vinnuumhverfisins á starfsmenn. Fjölbreyttur hópur fyrirlesara mun taka þátt í ráðstefnunni og hvetjum við alla þá sem láta sig málefnið varða að skrá sig á viðburðinn á heimasíðu stofnunarinnar, www.vinnueftirlitid.is Aðgangur að ráðstefnunni er öllum opin án endurgjalds en skráning er skilyrði.

Samningur um tilraunaverkefni í ferðaþjónustu undirritaður

Fummtudaginn 21. september var undirritaður samstarfssamningur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) við fjórar símenntunarmiðstöðvar um tilraunaverkefni um fræðslu starfsmanna í ferðaþjónustu. Framkvæmd samningsins verður í höndum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem FA vistar. Tilraunaverkefnið miðar að því að ná til fyrirtækja í ferðaþjónustu með fræðslu og þjálfun af ýmsu tagi. Hæfnisetrið mun sjá um útvegun nýrra og endurbættra verkfæra en megintilgangurinn er að samhæfa verkferla aðila, skiptast á efni, ráðgjöf og öðru sem að gagni kemur til auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og hvernig ná má til fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu. Undirritun samningsins var hluti af vinnudegi aðila verkefnisins þar sem farið var yfir verkferla og verkfæri sem nú standa til boða og verða reynd í tilraunaverkefninu. Ætlunin er að bjóða öllum fræðsluaðilum upp á þessi verkfæri að loknu tilraunaverkefninu. Dagurinn var okkur í Hæfnisetrinu mjög gagnlegur og fengum við mörg ráð í verkfærakistuna ekki síst frá þeim fulltrúum fyrirtækja sem þarna komu og miðluðu af reynslu sinni.

 

Fræðsla skilar öruggara og faglegra starfsfólki

Stofnendur fyrirtækisins þau Andrína Guðrún Erlingsdóttir og Benedikt Bragason hafa mikla reynslu af ferðalögum á fjöllum.  Undanfarin 20 ár hafa þau rekið ferðaþjónustu við Mýrdalsjökul og farið með ferðalanga upp á jökulinn og inn á hálendið á vélsleðum og jeppum. Hjá fyrirtækinu starfa um 25 manns og er skiptingin á milli íslenskra og erlendra starfsmanna nokkuð jöfn.

Mikil þekking hefur safnast saman í gegnum árin hjá starfsmönnum og höfum við verið að búa til fræðsluefni sem við notum í nýliðafræðslu sem byggir á fyrirlestrum og síðan verklegri þjálfun segir Tómas Magnússon einn af eigendum Arcanum.  Við skipuleggjum fræðslu eftir þörfum eins og  t.d. alltaf  þegar nýr starfsmaður kemur til starfa þá fer hann í gegnum nýliðaþjálfun sem felst i fræðslu um náttúruna, öryggi, ferðirnar, þjónustuna og viðhald og umgengni tækja og véla. Farið er vandlega yfir verklagsreglur  og verkferla.  Við byggjum þjálfuninn okkar út frá öryggisáætlununum.

Fræðsla og þjálfun hefur verið að skila okkur öruggara og faglegra starfsfólki, starfsfólk er fljótara að komast inn í starfið með góðri þjálfun. Námskeið Landsbjargar fyrsta hjálp í óbyggðum varð t.d. til þess að starfsfólki leið betur með  að hafa þessa þekkingu og varð faglegra í sínum störfum

Mikil keyrsla og vöxtur hefur verið í fyrirtækinu undanfarin ár. Við hefðum viljað hafa meiri tíma til að sinna fræðslumálum innan fyrirtækisins. Það  vantar formlega menntun í ferðaþjónustu segir Tómas. Ungt fólk þarf að sjá þennan starfsvettvang sem val sem framtíðarstarf.  Slíkt nám þarf að vera sniðið að þörfum þeirra sem eru starfandi í ferðaþjónustufyrirtækjum eins og bjóða  t.d. upp á  fjarnám með vinnu.

Við þurfum alla okkar fræðslu á ensku vegna þess að okkar gestir eru 99,9% erlendir ferðamenn og við þjónustum þau á ensku. Við viljum hafa alla okkar fræðslu á vinnustaðnum vegna þess að þá er hægt að miða við okkar aðstæður. Við þurfum sveigjanleika, hér er unnið á vöktum svo við þurfum að keyra hvert námskeið tvisvar. Við sækjumst t.d. eftir fræðslu um þjónustu, samskipti, leiðsögn, staðarþekkingu, öryggismál og fyrstu hjálp.

Kynning á verkefninu Þjálfun í gestrisni

Dagsetning: 28. september kl. 08:30 – 10:00
Staður: Hús atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík

Margrét Reynisdóttir og Sigrún Jóhannesdóttir kynna ,Þjálfun í gestrisni – Raundæmi og verkefni“. Þátttakendur fá að prófa hluta af þjálfunarefninu á staðnum. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Dagskrá:
• María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF
• Haukur Harðarson, verkefnastjóri Hæfniseturs ferðaþjónustunnar
• Sigrún Jóhannesdóttir, menntaráðfjafi: Fræðin á bakvið nýsköpunarverkefnið
• Margrét Reynisdóttir, ráðgjafi hjá www.gerumbetur.is: Hvað stöðu álitsgjafar?
• Tanía Smáradóttir, mannauðsstjóri hjá Hertz: Hvernig nýtist þjálfunarefnið?

Fræðslusjóður er sktyrktaraðili verkefnisins.
Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með kynningunni í gegnum netið senda á netfangið steinunn@frae.is

Skráning hér

Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar

Hlutverk Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, sem er verkefni vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, er að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og þar með auka gæði, fagmennsku, starfsánægju og arðsemi greinarinnar. Hæfnisetrið greinir þarfir fyrirtækja, mótar leiðir, eykur samvinnu og samræmingu við fræðslu og kemur henni á framfæri til fræðsluaðila og fyrirtækja innan ferðaþjónustu. Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og í víðtækri samvinnu og sátt við hagaðila í samfélaginu. Mikilvægt er að fræðsluaðilar standi fyrir árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar. Mat á árangri fræðslu á rekstur fyrirtækja er því einn af hornsteinum nálgunar setursins á fræðslu og hæfniaukningu í fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Leiðarljós hæfniaukningar í ferðaþjónustu er notkun og smíði verkfæra sem nýtast á hagnýtan hátt fyrir ferðaþjónustuna og á forsendum hennar. Aukin arðsemi og framleiðni eru lykilatriði, að öðrum kosti munu hvorki starfsfólk né stjórnendur nýta sér þau fræðsluúrræði sem eru í boði. Markmið allra í ferðaþjónustu eru ánægðir gestir.
Í sumar hefur verið unnið að skipulagningu á tilraunaverkefni sem verður farið af stað með í september. Tilraunaverkefnið felst í heildrænni nálgun á fræðslu með blöndu af utanaðkomandi fræðslu, innri fræðslu, rafrænni fræðslu og mat á árangri á rekstur. Fræðsla fer fram í fyrirtækjunum eða utan þeirra kjósi þau svo. Unnið er í því að festa niður þær símenntunarmiðstöðvar sem verða með í fyrsta fasa og verður því lokið fyrir 1. september. Mikill áhugi er hjá símenntunarmiðstöðvum og markaðsstofum sem rætt hefur verið við að taka þátt í fyrsta skrefi verkefnisins. Gerð hafa verið drög að þjálfun starfsmanna fræðsluaðila sem Hæfnisetrið sér um. Að loknu þessu tilraunaverkefni verður reynsla metin og fleiri fræðsluaðilum boðið í samstarf á þessu sviði.
Hæfnisetrið mun leggja til yfirfarið fræðsluefni sem unnið hefur verið af sjálfstæðum kennsluráðgjöfum með styrk frá Fræðslusjóði. Enn fremur hafa verið lögð drög að samkomulagi við vefgerðarstofu um notkun smáforrita (app) í snjallsímum í fræðslu en sá aðili hefur mikla reynslu á því sviði.