Upplýsingaveita til ferðamanna-Málþing í Borgarnesi

Málþing um upplýsingaveitu til ferðamanna var haldið í Hjálmakletti í Borgarnesi 8. júní sl. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar tók þátt í málþinginu. Haukur Harðarson var með kynningu á Hæfnisetri ferðaþjónustunnar þar sem hann fór meðal annars yfir markmið og tilgang setursins
Mörg önnur áhugaverð erindi voru flutt á málþinginu þar á meðal flutti Gary Breen, Head of Consumer Engagement frá Fáilte Ireland erindi sem hann kallaði Tourist Information in Ireland.
Hæfnisetrið tók einnig þátt í tveimur vinnustofum um gæða-, umhverfis- og fræðslumál. Haukur Harðarson og Valdís Steingrímsdóttir frá Hæfnisetrinu stýrðu vinnustofu um fræðslumál þar sem verkefnið var að kortleggja störf við upplýsingagjöf til ferðamanna. Markmið verkefnisins var að greina hvaða störf tengjast upplýsingagjöf til ferðamanna ásamt því að fá yfirsýn yfir störf í upplýsingagjöf og nýta þær upplýsingar til að móta og greina áhersluþætti í fræðslu fyrir ferðamenn.
Í framhaldinu er stefnt að því að fram fari hæfnigreiningar starfa í upplýsingamiðstöðvum sem framkvæmd verður með haustinu. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar gætu orðið grunnur að námskeiðum og jafnframt mætti  nýta þær til námskrágerðar eða raunfærnimats.

Fyrsti fundur fagráðs og stýrihóps

Fyrsti sameiginlegi fundur fagráðs og stýrihóps í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar var haldin í Húsi atvinnulífsins  þann 6. júní sl.  Tilgangur fundarins var að marka stefnu um hlutverk, framtíðarsýn og gildi Hæfniseturins. Ellefu einstaklingar sóttu fundinn fyrir utan starfsmenn Fræðslumiðstöðvarinnar sem hýsa verkefnið samkvæmt þjónustusamningi við Stjórnstöð ferðamála og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.
Framtíðarsýn Hæfnisetursins er að ferðaþjónustan hafi á að skipa framúrskarandi hæfu starfsfólki, sé eftirsóknarverður starfsvettvangur með möguleika á starfsþróun og  að uppbygging hæfni sé á forsendum og í takt við þarfir greinarinnar.
Jafnframt var rætt um uppbyggingu á námi í ferðaþjónustu, hverjar þarfir ferðaþjónustunnar væru og að komið verði á samráðsgrunni, þ.e. hringrás upplýsinga, um þarfir og framboð fræðslu og hvernig Hæfnisetrið kæmi síðan fræðslu á framfæri við fyrirtæki.
Fagráðið er mjög mikilvægur samráðsaðili fyrir störf Hæfnisetursins og voru fundarmenn ánægðir með inntak og störf Hæfnisetursins hingað til á stuttum starfstíma þess. Setrið hefur starfað síðan í lok janúar í ár. Unnið er að þróun á ýmsum verkefnum sem munu líta dagsins ljós í lok sumar og í haust.
Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og í víðtækri samvinnu við alla hagaðila. Hlutverk Hæfnisetursins er að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og þar með auka gæði, fagmennsku og arðsemi greinarinnar. Áhersla er á að greina þarfir fyrirtækja og starfsfólks, móta leiðir, auka samvinnu og samræmingu við fræðslu og koma á framfæri við hag- og fræðsluaðila. Hæfnisetrið ferðaþjónustunnar fær fræðsluaðila til að standa fyrir árangursmiðaðri fræðslu í samræmi við þarfir greinarinnar en stendur ekki fyrir námskeiðahaldi sjálft.